Fara í efni
Svavar Alfreð Jónsson

Bölvun eyrnamergjarins

Einn bjartan frostmorgun fyrir stuttu vaknaði ég upp nánast heyrnarlaus með hnausþykka hellu fyrir eyrunum. Með markvissum aðgerðum tókst mér að mýkja eyrnamerginn sem var sökudólgur í þessu máli, skola einhverju af honum út og ná þannig ofurlítilli heyrn öðrum megin þannig að ég heyrði helstu dagsfyrirmæli eiginkonunnar áður en hún fór í vinnuna.

Þannig á mig kominn druslaðist ég á karlakórsæfingu um kvöldið. Eyrnahellan virkaði eins og brynvörn og hleypti nánast engum umhverfishljóðum í gegn. Ég hef á hinn bóginn sjaldan heyrt betur í mér sjálfum. Söngur félaga minna í 2. tenór var því vart greinanlegur í hlustum mínum á æfingunni en eiginn söngur hljómaði þar sem aldrei fyrr.

Þótt eflaust megi með lagni finna verri söngmenn en mig er frekar tilgangslaust að vera í kór ef maður er þar bara til að hlusta á sjálfan sig. Oft er ég ekki viss um hvernig eigi að syngja lög eða hitta á réttu tónana. Þá er ómetanlegt að geta stutt sig við söng raddfélaganna. Sú hjálp er að sjálfsögðu útilokuð ef maður heyrir ekkert nema sína eigin raust.

Og það sem enn verra er: Heyrnardeyfð mín gerði það að verkum að ég heyrði ekki sándið í kórnum og upplifði því mig ekki lengur sem hluta af hans dásamlegu heild. Ég heyrði ekkert nema eigið einstæðingslegt og slitróttt söngvakvak. Ég var einmana og heyrnarlaust gamalmenni sem varð að játa sig sigrað af mergnum í eyrum sér.

Raddir okkar mannfólksins eru ólíkar, misháar, miskröftugar, sumar þéttar og þýðar, aðrar grófari og garralegri. Kór er fjölhljómur ólíkra radda. Og þannig er samfélagið. Hljómur þess er búinn til úr samspili fjölbreytilegra radda. Vilji maður tilheyra samfélagi, vilji maður ekki vera aleinn í heiminum, þarf maður bæði að hlusta á þessar ólíku raddir og gefa rödd sína í þann fjölhljóm.

Fari þjóðfélagsumræðan einkum fram í notalegheitum bergmálshellisins í félagsskap jábræðra og halelújasystra má efast um að það sé hollt fyrir mann sjálfan eða samfélagið. Óþolið gagnvart andstæðum sjónarmiðum eða skrýtnum skoðunum sem mér finnst sífellt meira áberandi gæti verið hættulegt mennskunni. Það er varasamt að heyra bara í sjálfum sér. Þá þrengist sjóndeildarhringurinn niður í einn punkt í miðjunni á manni sjálfum.

Ef ég þarf aldrei að takast á við neitt nema mig sjálfan, ef ég hlusta aldrei eftir því hvernig aðrir syngja lögin, sé ég sennilega síður ástæðu til að efast um sjálfan mig eða líta í eigin barm. Það getur vissulega verið þægilegt en vafamál hvort það sé heilbrigt.

Jólin safna okkur saman. Í sögunni mögnuðu af fæðingu Jesúbarnsins komu hirðarnir hlaupandi að jötunni utan úr myrkri Betlehemsvalla og vitringarnir náðu þangað líka með gjafir sínar eftir að hafa elt stjörnuna um firnindi sanda og fjalla. Og enn stefna jólin okkur af stað hvert til annars. Við viljum heim um jólin. Við viljum hitta þau sem við elskum. Sennilega er aldrei brýnna fyrir flugfélögin og önnur fyrirtæki í almenningssamgöngum að sinna þessari löngun okkar að vera í samfélagi hvert við annað en um þetta leyti ársins. Símarnir og internetið eru líka dýrmæt úrræði fyrir þau sem ekkert komast. Jólin eru uppreisn gegn einsemdinni og einstæðingsskapnum.

Fyrir rúmum áratug sendu sálfræðingurinn John T. Cacioppo og rithöfundurinn William Patrik frá sér merkilega bók um einsemdina (Loneliness. Human Nature and the Need for Social Connection). Þar eru teknar saman niðurstöður viðamikilla vísindarannsókna á einmanaleikanum og sýnt fram á að hann hefur afar skaðleg áhrif á líkama, sál og anda. Áherslan á samkeppni og einstaklingshyggju er ein orsök sívaxandi einsemdar í samfélagi manna. Höfundar bókarinnar telja að einsemdin sé óholl andlegri og líkamlegri heilsu manna með svipuðum hætti og reykingar og offita. Ein leið til að berjast gegn einsemdinni er fólgin í því að fjölga og hlúa að tækifærunum sem við höfum til félagslegra samskipta. Jólin eru slíkt tækifæri.

Mættu þau nýtast ykkur vel og verða ykkur til blessunar, kæru vinir. Og mættu hvorki eyrnamergur né aðrar hindranir á samskiptum við aðrar manneskjur há ykkur í hátíðahöldum komandi daga.

Gleðileg jól!

Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur

Jólakvöld séra Svavars Alfreðs

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 12:30

Orðhákar og töfralausnir

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
14. nóvember 2024 | kl. 08:30

Meðhjálparinn

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
07. nóvember 2024 | kl. 10:30

Karlakór í Kalabríu – II

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
30. október 2024 | kl. 11:00

Karlakór í Kalabríu – I

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
29. október 2024 | kl. 09:30

Eitt sinn voru roskin hjón á Syðri-Brekkunni ung

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
27. september 2024 | kl. 17:00