Fara í efni
Sund

Hættir vegna erfiðra, óútskýrðra veikinda

Bryndís Rún Hansen, besti sundmaður Akureyringa og margfaldur Íslandsmethafi í gegnum tíðina, hefur ákveðið að hætta keppni. Hún stundaði nám á Hawaii í nokkur ár og keppti fyrir skólaliðið, hefur búið í Tyrklandi eftir að námi lauk. Bæði Bryndís og unnusti hennar gerðust atvinnumenn í sundi í Tyrkalandi, en hún hugleiðir nú að snúa heim á ný.

Bryndís er 27 ára. Hún var kjörin íþróttamaður Akureyrar 2009, 2010 og 2011 og íþróttakona Akureyrar 2016, eftir að farið var að kjósa besta íþróttamanninn af hvoru kyni. Ferill hennar var glæsilegur og á Bryndís enn þrjú Íslandsmet. Nánar um árangur Bryndísar HÉR

„Ég ákvað að hætta núna vegna þess að ég hef verið að glíma við allskonar heilsuvandamál síðustu þrjú ár. Á þeim tíma hef ég reynt allt til þess að finna leið til að geta haldið áfram að æfa og keppa; harkaði bara af mér og hélt áfram, sem ég hefði ekki átt að gera, og bætti bara í ef eitthvað var, því það var það eina sem ég þekkti. Ég gerði mér engan veginn grein fyrir því á hversu slæmum stað ég var allan þennan tíma, bæði líkamlega og andlega. Það er skrítið að segja það, en Covid heimsfaraldurinn hjálpaði mér til að átta mig á því að það er annað mikilvægara í lífinu en sund. Ég ákvað að kominn væri tími til þess að setja sjálfa mig í fyrsta sæti,“ segir Bryndís við Akureyri.net.

Bryndís nam þrjú ár við Hawaiháskóla, The University of Hawaii - Manoa, í Honolulu, og útskrifaðist með gráðu í markaðsfræði sumarið 2019. „Það var draumi líkast að búa þarna. Ég hugsaði oft um að ég myndi sennilega ekki átta mig fullkomlega á því hve staðurinn er mikil paradís fyrr en ég flytti í burtu, og sú varð auðvitað raunin.“

Aðstæður í Honolulu á Hawaii eru frábærar og staðurinn sannkölluð paradís á jörðu, að sögn Bryndísar.

 

Erfiðar æfingar og mikil pressa

Hún segir afar vel haldið utan um íþróttina og námið í skólanum. „Sundið var alltaf númer eitt, tvö og þrjú hjá mér en þetta helst allt í hendur vegna þess að maður verður að standa sig vel í náminu, verður að fá góðar einkunnir, til þess að mega keppa fyrir hönd skólans. Það krafðist mikils undirbúnings að fara að keppa þar sem við vorum úti í ballarhafi og það tók að minnsta kosti fimm klukkutíma að fljúga yfir á meginland Bandaríkjanna. Við flugum alltaf yfir nótt til þess að missa ekki of mikið úr skóla, við þurftum að skila inn verkefnum og oft að taka próf á milli þess að búa okkur undir keppni.“

Bryndís segist aldrei hafa upplifað jafn strangar æfingar og jafn mikla pressu og þau ár sem hún var við skólann á Hawai, „en það skilaði sér heldur betur á tímabili og sé ég alls ekki eftir því. Það hjálpaði mikið að geta aðeins náð andanum með því að leggja sig á ströndinni, horfa á sólsetrið og synda í sjónum til að hlaða batteríin.

Við byrjuðum að æfa eldsnemma á morgnana og náðum því að sjá sólarupprásina, himininn í ótrúlegustu litum og nokkra regnboga á dag. Þjálfaranir nýttu tækifærið á erfiðustu æfingunum til að minna okkur á hversu heppin við værum að búa í Paradís og þannig náðu þeir að hvetja okkur áfram.“

Bryndís Rún íþróttamaður Akureyrar árið 2009. Með henni eru Rakel Hönnudóttir fótboltakona sem varð önnur í kjörinu og handboltamaðurinn Oddur Gretarsson sem varð þriðji.

 

Bryndís var ekki há í loftinu þegar hún hóf að æfa sund heima á Akureyri, einungis sjö ára. Hún hefur því verið að í ein 20 ár, en alvaran hófst í raun þegar hún var 12 ára, undir leiðsögn rússneskra þjálfara sem störfuðu hjá Óðni. „Vladislav og Svetlana hjálpuðu mér mikið við að ná góðum árangri. Ég man þegar þau nefndu fyrst við mig að ef ég vildi skara fram úr í sundinu þyrfti ég að flytja eitthvert í burtu, helst til útlanda. Ég man hvað ég var hneyksluð og hélt að þau væru bara að reyna að losna við mig! Það leið hins vegar ekki langur tími þar til að ég var flutt til Noregs, þaðan fór ég til Bandaríkjanna og svo hingað til Tyrklands."

Foreldrar Bryndísar Rúnar, Ásta Birgisdóttir og Ingi Arnvið Hansen, hafa ætíð stutt vel við bakið á henni. Ásta var í stjórn Sundfélagsins Óðins í áratug, þar af formaður frá 2004 til 2009.

„Rússnesku þjálfararnir, Vladislav og Svetlanda gerðu mig án nokkurs vafa að þeim íþróttamanni sem ég hef verið og ég sé pínu eftir því að hafa ekki tekið íþróttina alvarlegar fyrr, því þá hefði ég kannski náð ennþá lengra. Ég var alltaf svo „nægjusöm“ og ánægð með litlu sigrana, sem er auðvitað mikilvægt líka, en ég var pínu hrædd við að leyfa mér að dreyma of stórt. Ég er á þeirri skoðun að það hafi aðeins haldið aftur af mér.“

HM 2016 stendur upp úr

Bryndís segist alla tíða hafa haft mjög gaman af því að keppa. „Það byrjaði á litlum innanfélagsmótum á Akureyri og hægt og rólega fann ég að ég elska ekkert meira en að keppa og skora á sjálfa mig. Það keppnisskap kom mér langt og hjálpar mér enn þann dag í dag við allt sem ég geri.“

Heimsmeistaramótið í Windsor í Kanada 2016 stendur upp úr á ferlinum, að sögn Bryndísar. „Þar bætti ég fimm Íslandsmet á jafn mörgum dögum, bæði í einstaklingsgreinum og boðsundi. Ég komst í undanúrslit í 50 metra flugsundi og endaði í 16. sæti og var mjög ánægð með það. Ég var í besta formi lífs míns og öll vinnan var að skila sér. Því miður var þetta síðasta stóra mótið fyrir meiðslin og ég náði mér aldrei nógu vel á strik aftur.“

Bryndís með gullverðlaunin sex frá Smáþjóðaleikunum í San Marínó 2017. 

 

Unnusti Bryndísar Rúnar, Metin Aydin, er einnig sundkappi. „Hann er atvinnusundmaður. Við kynntumst á sundmóti í Bandaríkjunum þar sem við vorum í sitthvorum skólanum. Þetta var meðan ég var í Flórída. Við vildum bæði prufa eitthvað nýtt og fluttum saman til Hawaii en búum nú saman í Tyrklandi. Hann er hálfur Þjóðverji og hálfur Tyrki og syndir fyrir tyrkneska landsliðið.“

Eins og fram kom í upphafi hefur Bryndís glímt við ýmis heilsuvandamál síðustu þrjú ár. Eftir að hún lauk námi á Hawaii  fluttu þau Metin til Tyrklands í þeim tilgangi að starfa sem atvinnumenn í sundi. Bryndís var á samningi í eitt ár en ákvað að leggja keppnisbolinn á hilluna í haust „en hann á nóg eftir!“  segir hún um kærastann.

Miklir verkir um allan líkamann

Spurð nánar út í veikindin segir Bryndís: „Ég fékk loftbrjóst eftir nálastungu árið 2017; gat kom á annað lungað sem féll saman að hluta með tilheyrandi eftirköstum. Líðan mín einkenndist af miklum verkjum, fyrst í brjóstkassa en með tímanum dreifðust þeir út um  allan líkamann þar sem taugar skemmdust eitthvað. Ég fékk aldrei almennileg svör um hvað gerðist eða hvað nákvæmlega var að hrjá mig, en þessi röngu taugaboð ollu verkjum sem gerðu mér oft ómögulegt að æfa og keppa. Þetta tók verulega á líkamlega í langan tíma,“ segir Bryndís og bætir við að það hafi í raun bara verið vegna þess hve hún var tilbúin að harka af sér að hún gat haldið áfram. „Ég er rétt núna að losna við þessa verki en því miður gaf hausinn sig á endanum og það er eitthvað sem maður verður alltaf að hafa í lagi ef að maður vill hafa trú á sjálfum sér.“

Ekki er nákvæmlega ljóst hvað framtíðin ber í skauti sér. „Ég hef verið að sækja um vinnu, bæði hér í Tyrklandi og á Íslandi, það hefur því miður ekki gengið hingað til, en ég held í vonina. Ég hef reyndar fengið tvö atvinnutilboð hérna í Tyrklandi, en mánaðarlaunin myndu ekki einu sinni duga til að kaupa flugmiða heim! Mér finnst það alveg ótrúlegt, þannig að ég er að nú að skoða möguleikana heima á Íslandi,“ segir Bryndís Rún Hansen.

Bryndís og kærasti hennar, Metin Aydin. Hann er atvinnumaður í sundi í Tyrklandi og keppir með tyrkneska landsliðinu. Myndin er tekin á síðasta mótinu sem þau tóku þátt í fyrir útskrift frá háskólanum á Hawaii.