Fara í efni
Súlur - tímarit Sögufélags Eyfirðinga

„Við vorum ekki Akureyringar“

Geir Ívarsson, afi greinarhöfundar, með fyrsta barnabarnið, Hauk Jóhannsson (f. 1959). Á milli þeirra og kindarinnar Bimbu sér í Brautarhól.

Í nýjasta hefti Súlna, tímarits Sögufélags Eyfirðinga, ræðir Kristín M. Jóhannsdóttir við þrjá eldri „Þorpara“ um æsku þeirra og uppvöxt í Glerárþorpi. Þetta eru systkinin Kolbrún og Ívar Geirsbörn, fædd í Steinholti, og Geirlaug Sigurjónsdóttir sem fæddist að Ási I.

Akureyri.net birti annað veifið kafla úr greinum sem komið hafa í tímaritinu og hér er gripið niður í þessari afskaplega fróðlegu og skemmtilegu frásögn þremenninganna sem Kristín hefur kaflaskipt. Meðal kaflaheita eru; Fjölskyldan, Um húsakynni, Stríðsárin, Í skólanum og Þorpið sameinast Akureyri.

Hér birtist kaflinn, Börnin í Þorpinu:

„Þrátt fyrir mikla fátækt voru börnin í Þorpinu almennt hraust. Ívar bendir sérstaklega á að þrátt fyrir náið sambýli við mýsnar virðist ekki hafa fylgt þeim neinar pestar og að þær hafi örugglega bara verið ágætis bólusetning því börnin urðu nær aldrei lasin. „Nema þegar við fengum mislingana,“ segir Ívar. „Kolla var nærri dauð – hún fékk 42 stiga hita.“ Ástandið á Kolbrúnu var vissulega slæmt því Stefán Guðnason sem þá var læknir á Akureyri vakti með Guðrúnu móður þeirra eina nóttina. „Hann átti von á því að ég myndi bara hrökkva upp af hvenær sem væri,“ segir Kolbrún. „En gamla er lifandi enn.“ Mislingarnir komu líka í Ás þar sem börnin lögðust flest og Geirlaug man eftir því hvernig allir lágu saman í flatsæng á gólfinu. „Það fór ekkert illa um okkur,“ bætir hún við. Auk mislinganna fékk Geirlaug Akureyrarveikina sem hófst haustið 1948 og gekk eitthvað fram á árið 1949. Hún slapp þó þokkalega en Kristján Hannesson, sem átti eftir að verða eiginmaður hennar, fékk hana hins vegar slæma og var næstum ár að ná sér.

Viðmælendur Kristínar. Lengst til vinstri er móðir hennar, Kolbrún Geirsdóttir, í miðið Ívar, bróðir Kolbrúnar, og þá Geirlaug Sigurjónsdóttir.

Eins og fram hefur komið voru alltaf kettir á heimilum til að halda niðri músum. Í Steinholti réð lengi ríkjum Stóri digri Delimann og hann hélt mikið upp á Kolbrúnu að sögn Ívars. Eitt sinn þegar hún var sofnuð stökk Deli upp í rúm til hennar og reyndi að koma sér fyrir við hálsakotið á henni, nema Kolbrún hafði dregið sængina alveg upp í háls svo kötturinn fann ekkert pláss. Eitthvað hefur hún þó orðið vör við hann því í svefnrofunum segir hún við köttinn: „Komdu bakdyramegin.“ Og það er ekkert með það að kötturinn fór til fóta og tróð sér undir sængina og kom sér fyrir við hnésbæturnar við mikinn hlátur hinna á heimilinu. „Hann skildi dálítið af því sem maður sagði við hann,“ segir Kolbrún. „Já, hann var ótrúlegur,“ bætir Ívar við. „Stóri digri Delimann, langt og mikið nafn.“ Kolbrún minnist þess líka þegar þau áttu eitt sinn tvær læður og báðar voru með kettlinga á sama tíma. Þá stungu börnin kettlingunum einfaldlega í vasann og fóru með þá út að leika. „Eitt stykki kettling í vasa,“ segir Kolbrún og það er auðsýnt að hún hefur alltaf verið mikil kattakona. Guðrún móðir þeirra dró mörkin hins vegar við hund. Slíkur kæmi ekki inn á heimilið.

Geirlaug, Sigursveinn Magnússon Sunnuhvoli og Kolbrún lengst til hægri. Myndin er tekin í skólaferðalagi, sennilega í Ásbyrgi. Rútan er af tegundinni Ford og kom af Bifreiðastöð Akureyrar, BSA. Eigandi hennar, Kristján Kristjánsson, átti mikinn bílaflota og enduðu bílnúmer á stöðinni flest á 9.

Eins og fram hefur komið héldu flestir einhverjar skepnur auk þess sem kettir voru í hverju húsi. Geir í Steinholti átti alltaf nokkrar kindur og eitt sinn var Kolbrún send til að sækja þær í réttina sem þá var rétt norðan við Brautarhól. Þegar hún mætti á staðinn fann hún Valda á Ljósstöðum og sagðist vera komin að sækja kindur föður síns. Það kom nokkuð á Valda þegar hann spurði að markinu á kindunum og Kolbrún sagðist ekkert muna það. Hann vildi þá vita hvernig hún ætlaði að þekkja kindurnar og hún sagði að það væri ekkert mál, hún þekkti þær alveg á svipnum. Hann hló því dátt þegar Kolbrún óð inn í hópinn og kom með kindur pabba síns, einar átta auk lamba, og fór með þær heim.

Frægust kindanna í Steinholti var Bimba enda þekkja jafnvel barnabörnin á henni nafnið. Á þessum tíma sótti fólkið í Þorpinu ekki endilega mikið í bæinn enda var búð á Krossanesi þar sem hægt var að fá ýmislegt; þó kom það fyrir að haldið var suður yfir á. Eitt sinn þegar Guðrún í Steinholti ætlaði í bæjarferð slóst kindin Bimba með í för og lallaði við hlið Guðrúnar. Á eftir þeim kom svo kötturinn Deli. Þegar Guðrún var komin suður að Bjarmalandi, nú Stórholti, þar sem Snjóa systir hennar bjó þá, og bæði kind og köttur voru enn með í för, neyddist hún til að snúa við því dýrin ætluðu greinilega ekki að gefast upp og fara heim. Þessa sögu heyrði höfundur margoft sem barn og í minninu var ekki nóg með að þau Bimba og Deli röltu þetta með Guðrúnu heldur flaug hrafninn í Hvoli yfir höfði hennar líka. Þar var þó tveim sögum slegið saman því hrafninn fylgdi aldrei Guðrúnu heldur Njáli í Hvoli; fór með honum til vinnu í Krossanesi og átti það svo til að dengja sér á mikilli ferð niður að höfðum fólks svo börnin voru skíthrædd. „En svo komst hann í rottueitur og drapst,“ segir Ívar og augljóst er að hann sér ekki eftir hrafnsskömminni.

Á skíðum. Talið frá vinstri, Jónas Sigurbjörnsson í Holtakoti, systkinin í Steinholti, Ívar og Kolbrún Geirsbörn, Ásta Karlsdóttir í Hvoli og Sigurbjörn Björnsson í Brekku.

Glerárþorp var barnmargur staður og þar var gaman að alast upp. Börnin léku sér í fótbolta, Slábolta, Yfir og Hlaupa í skarðið, ásamt fleiri leikjum. Á veturna var bæði farið á skíði og skauta. Gunnar bróðir þeirra Kolbrúnar og Ívars var svo heppinn að eignast sleða og sjálfsagt hafa þau systkinin fengið að prófa en þó var algengara að farið væri á skíði. Gigga átti tunnustafi sem hún notaði sem skíði og Ívar var á einhverjum görmum en einhverra hluta vegna eignaðist Kolbrún almennileg skíði. „Kolla var svona eins og svolítil plága. Hún heimtaði að menn væru ræstir á morgnana til að fara á skíði. Það var í tíma og ótíma ... og svo var heila halarófan á leið á skíði,“ segir Ívar. „Já, það var ekkert gaman að vera ein á skíðum,“ segir Kolbrún og glottir enda átti hún síðar eftir að stunda fjallið grimmt með sínum börnum. Á þessum tíma var hins vegar farið á skíði út í svonefndan Krossaneshaga gegnt Jötunfelli – úti í haga eins og almennt var sagt. Geirlaug minnist þess hversu há brekkan hafi raunverulega verið. „Þetta var alvöru brekka“. Þarna úti í haganum var búinn til stökkpallur og svo fóru þar fram skíðakeppnir. Kolbrún minnist þess sérstaklega að eitt sinn hafi Geirlaug fengið lánuð alvöru skíði í stað tunnustafanna og síðan gert sér lítið fyrir og unnið keppnina.

„Ég átti tréskauta,“ segir Geirlaug. „Það var svona tré og járn í miðjunni ... bara eins og á sleðum. Kolbrún man ekki eftir því að hafa átt skauta þótt hún muni vel eftir skautaferðum – heldur að hún hafi jafnvel fengið einhverja lánaða. Ívar vill þó meina að pabbi þeirra hafi komið heim með skauta handa þeim – svona skauta sem voru skrúfaðir neðan í skó – en að þeir hafi passað illa. Skautarnir voru þó látnir duga og farið niður í Bót og skautað á ósnum sem oft var svellalagður. Þar söfnuðust mörg börn saman og þá var gjarnan verið að stríða hvert öðru, m.a. með því að taka húfuna af einum og setja hana á annan. Þegar þau komu svo heim spurði mamma þeirra alltaf að því hvaða krakkar hefðu verið með þeim og svo var kamburinn rifinn upp. „Helvítis kamburinn,“ segir Geirlaug og hryllir sig. Lúsin var viðvarandi vandamál á þessum tíma og hún loddi sérstaklega við sum heimili. Ef krakkar frá ákveðnum húsum voru með þurfti ávallt að kemba. Geirlaug minnist þess hvernig hún hafi reyndar verið kembd á hverjum einasta degi þegar hún kom heim úr skólanum og ljóst er að minningar hennar um kambinn eru ekki ljúfar.“

Viðtalið tekur yfir um 30 síður í Súlum en alls er tímaritið 164 síður.