Fara í efni
Súlur - tímarit Sögufélags Eyfirðinga

Mix – sagan leiðrétt

Systkinin Valgerður Valdemarsdóttir, Þórhildur Valdemarsdóttir, Hólmgeir Valdemarsson og Baldvin Valdemarsson hafa sett saman „fróðlega og tímabæra“ leiðréttingu við það sem sagt er í Sögu Akureyrar, V. bindi, eftir Jón Hjaltason sem út kom 2009. Svo segir í nýjasta hefti Súlna, tímarits Sögufélags Eyfirðinga.

Ritstjóri Súlna er einmitt Jón Hjaltason, sem ritaði Sögu Akureyrar. Það hefur orðið að samkomulagi að Akureyri.net birti annað veifið efni úr tímaritinu. Grein systkinanna fer hér á eftir.

„Skítamix“

Í Sögu Akureyrar V. bindi, bls. 160-161, er fjallað um gosdrykkja- verksmiðjuna Flóru og framleiðsluvörur hennar. Þar er er líka sögð saga af tilurð þess vinsæla gosdrykkjar sem ber nafnið MIX.

Þar sem málið er okkur skylt, viljum við koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum til leiðréttingar á þeim missögnum sem þarna er að finna. Sum okkar störfuðu einnig í verksmiðju Efnagerðar Akureyrar/Sana á þessum tíma svo við þekkjum málið vel frá fyrstu hendi.

Sagan sem í bókinni er sögð af því hvernig Mixið varð til er hin skemmtilegasta en gallinn er sá að hér er einfaldlega um hreinan skáldskap að ræða. Þarna er einnig fullyrt að Mixið hafi verið framleitt í Flóru sem er einfaldlega alrangt.

Saga um tilurð Mix var einnig birt í Fréttablaðinu 27. febrúar 2010 þar sem segir að Mix hafi fyrst verið blandað og framleitt hjá Efnagerðinni Flóru á Akureyri og að það hafi verið Björgvin Júníusson sem hafi búið til þennan drykk fyrstur manna með aðstoð vinnufélaga sinna. Mistök hafi orðið í sendingu á blönduðu ávaxtaþykkni til verksmiðjunnar sem átti að nota til framleiðslu á Valash, þannig að í því hafi verið of lítið af appelsínuþykkni og of mikið af ananasþykkni. Síðan segir í þessari grein: „Björgvin náði að blanda drykkjarhæfan mjöð úr þykkninu og kallaði til vinnufélaga sína til að smakka „skítamixið“ eins og hann kallaði útkomuna. Mönnum féll drykkurinn ágætlega en töldu ófært að kalla hann Skítamix svo niðurstaðan varð einfaldlega Mix og Mixið er drukkið enn í dag.“

Ekki er vitað hvort höfundur þessarar greinar, Dr. Gunni, hafði heimildir sínar úr Sögu Akureyrar en hvað um það, sagan er ekki síður röng varðandi það hvar Mixið varð til og hverjir bjuggu það til í upphafi. Þarna er líka á því byggt að Valash hafi verið framleitt í Flóru sem er einfaldlega alrangt. Valash var danskur drykkur sem hérlendis var í upphafi framleiddur af Efnagerð Siglufjarðar og síðar af Efnagerð Akureyrar/Sana. Sú niðurstaða, að höfundur Mix sé Björgvin Júníusson og að það hafi verið framleitt í Flóru á sér því enga stoð.

Mistök í sendingu

Hér á eftir verður gerð grein fyrir því hver er í raun og veru uppruni þess ágæta gosdrykkjar, Mix, sem framleitt er enn í dag og nú hjá Ölgerðinni.

Á Akureyri var á þeim tíma sem þarna er rætt um, starfrækt önnur og stærri gosdrykkjaverksmiðja en Flóra. Sú verksmiðja átti uppruna sinn að rekja til Siglufjarðar og hét þá Efnagerð Siglufjarðar, stofnuð 1939, þar sem framleiddir voru gosdrykkir og efnagerðarvörur. Verksmiðja þessi var síðan flutt til Akureyrar árið 1945 og var þá nafni félagsins breytt í Efnagerð Akureyrar og síðar í Sana, en það nafn hafði lengi verið notað á framleiðsluvörur fyrirtækisins. Árið 1958 festu þeir kaup á verksmiðjunni, faðir okkar Valdemar Baldvinsson og félagar hans, Jón M. Jónsson (JMJ) og Skarphéðinn Ásgeirsson í Amaró. Faðir okkar var sá eini af eigendunum sem vann við verksmiðjuna og var þar framkvæmdastjóri. Valdemar seldi hlut sinn 1966 eftir breytingar sem orðið höfðu á eignarhaldi félagsins og kom hann ekki að rekstri þess eftir það.

Á Siglufirði var Valash uppistaðan í gosdrykkjaframleiðslunni en Morgan Cream Soda var einnig framleitt þar og ýmsar fleiri tegundir. Á Akureyri bættust við nýjar tegundir svo sem Jolly Cola, sem var danskt að uppruna. Þá var haldið áfram með Valash og Cream Soda og svo komu fleiri tegundir í viðbót og þar á meðal var drykkur sem nefndur var Mix.

Segja má að uppruni þess hafi verið nokkurs konar tilviljun en það atvikaðist þannig að við framleiðslu á Valash var notað innflutt appelsínuþykkni enda var sá drykkur danskur að uppruna. Nú gerðist það eitt sinn að mistök urðu í sendingu þannig að í stað appel- sínuþykknis kom ananasþykkni. Þá voru góð ráð dýr, hvað átti að gera við þetta ananasþykkni? Því björguðu Indriði Jakobsson, sem var verkstjóri í framleiðslunni og Þórhildur Valdemarsdóttir sem þar starfaði einnig. Þau tóku sig saman og blönduðu þessu ananasþykkni saman við annað ávaxtaþykkni og útkoman varð blanda sem þau nefndu Mix. Þetta þótti snjallt nafn og Mixið naut strax vinsælda og seldist vel.

Í áðurgreindri umfjöllun um Efnagerðina Flóru í Sögu Akureyrar, segir einnig að þar hafi drykkurinn Cream Soda verið framleiddur. „Á flöskunum var mynd af þremur glöðum körlum með pípuhatta sem börnin héldu að væru akureyskir betri borgarar“ segir þar. Þetta er ekki rétt. Flóra framleiddi að vísu sína útgáfu af Cream soda en á þeim flöskum var engin mynd af glöðum körlum, aðeins nafnið Cream Soda. Í Efnagerð Akureyrar/Sana var aftur á móti framleitt Morgan Cream Soda og þar var flöskumiðinn með myndinni af hinum kátu körlum. Þetta var að uppruna erlendur gosdrykkur sem fyrst var framleiddur hérlendis hjá Efnagerð Siglufjarðar og áfram á Akureyri eftir að verksmiðjan fluttist þangað. Það stenst því ekki að Flóra hafi framleitt þann ágæta drykk sem um er rætt í Sögu Akureyrar.

Varðandi áðurnefnda drykki það er Valash, Jolly Cola og Morgan Cream Soda þá voru þeir, eins og fram hefur komið, af erlendum uppruna og því framleiddir hér samkvæmt leyfi frá upprunalegum framleiðendum og eftir uppskriftum frá þeim.

Um alla framangreinda drykki, uppruna þeirra, myndir af flöskumiðum og fleira má einnig vísa til umfjöllunar um þá á slóðinni: siglo.is/is/frettir/thor-johanns-og-safnid-hans

Oddur var Ágústsson, ættaður úr Hrísey. Hann auglýsti: Verslunin Höfn, hafnarbakkanum. Oddur starfrækti Höfn í þessu húsi Bifreiðastöðvar Akureyrar sem hann lét flytja úr Strandgötu og setja á lóðina austan við Nýja Bíó. Ljósmynd: Ragnar Skjóldal

Oddur snúið sér við í gröf sinni

Í Sögu Akureyrar er einnig vikið að Oddi í Höfn í þessu sambandi og þar segir svo í V. bindi bls. 160: „Oddur í Höfn seldi vitaskuld Flóru-gosdrykki og hélt mjög fram hinum dísæta Cream Soda sem drekka varð ískaldan.“

Þetta er svo mikið öfugmæli að Oddur hefur örugglega snúið sér við í gröf sinni hafi hann lesið þennan texta. Oddur Ágústsson var frá Hrísey og á þessum árum rak hann litla verslun skammt frá BSO þar sem nú stendur fasteignin Hofsbót 4. Þarna seldi Oddur sælgæti, gosdrykki, pylsur og þess háttar varning. Oddur var eldheitur sjálfstæðismaður og mjög í nöp við KEA og allt sem því félagi tengdist svo fyrr hefði hann lokað búðinni heldur en skipta við KEA veldið. Hann var hins vegar ágætur viðskiptavinur Sana enda réði þar ríkjum Valdemar Baldvinsson eins og áður hefur komið hér fram. Hann var frá Hrísey eins og Oddur og þeir voru gamlir vinir, svo annað kom ekki til greina hjá Oddi en að skipta við Sana.

Í tengslum við umfjöllun um þennan ágæta drykk, Cream Soda, má enn fremur geta þess að á vegg verksmiðjuhúss Sana við Hafnarstræti 19, þar sem nú er fasteignasalan Hvammur, var máluð stór mynd af hinum glöðu og pattaralegu körlum með pípuhattana sem prýddu flöskumiða Morgan Cream Soda. Þessa mynd málaði Kristinn G. Jóhannsson, sem þá var nýkominn úr listnámi sínu erlendis.

  • Akureyri.net vekur athygli á því að hægt er að gerast áskrifandi að Súlum með því að senda póst á gjaldkera stjórnar - jhs@bugardur.is