Vinna áfram saman að námi í lögreglufræðum

Samið hefur verið um áframhaldandi samstarf Háskólans á Akureyri (HA) og embættis ríkislögreglustjóra vegna lögreglufræðináms. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu (MSL) annast og skipuleggur verklega hluta námsins fyrir hönd ríkislögreglustjóra í samstarfi við HA. Áslaug Ásgeirsdóttir rektor HA og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri undirrituðu í vikunni samning þar að lútandi.
Fyrstu stúdentarnir í lögreglufræði hófu nám við Háskólann á Akureyri haustið 2016. „Námið hefur vaxið hratt á undanförnum árum og hefur verið gott samstarf á milli HA og MSL til að tryggja gæði námsins. Í ár hefur fjöldi umsókna farið fram úr björtustu vonum og höldum við áfram þeirri vegferð að tryggja gott samstarf,“ segir Áslaug.
Á vef skólans er rifjað upp að gæðaúttekt á náminu var framkvæmd árið 2021 og svo eftirfylgniúttekt árið 2023. Báðar komu vel út og í þeirri nýrri segir: „Úttektarhópurinn ber traust til starfshátta og getu Háskólans á Akureyri til að tryggja gæði náms og þess námsumhverfis sem hann býður nemendum sínum í lögreglufræðum, í nútíð og nánustu framtíð.“ Í slíkum úttektum koma ætíð fram ábendingar um þætti sem þurfi að vinna með og hefur það verið gert í góðu samstarfi HA og MSL, segir á vef skólans. Í tengslum við námið fara fram rannsóknir á lögreglufræði og þar með nauðsynleg sköpun og miðlun nýrrar þekkingar inn á starfsvettvanginn.
„Þá er gaman að segja frá því að í sjö ár hafa verið haldnar metnaðarfullar ráðstefnur tengdar náminu sem kallast Löggæsla og samfélagið þar sem sérfræðingar koma fram og ræða málefni mikilvæg samfélaginu og lögreglunni.“
Áttunda ráðstefnan fer fram 1. og 2. október og hefur verið opnað fyrir skráningu hér.