Fara í efni
Slippurinn - Akureyri

Mikið magn bílhræja, spilliefni og olíumengun

Athafnasvæði Auto ehf. að Setbergi á Svalbarðsströnd fyrir nokkrum árum.

Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hefur ákveðið að beita lóðarhafa að Hamragerði 15 á Akureyri dagsektum að nýju frá 1. október hafi ekki verið bætt úr umgengni á lóðinni fyrir þann tíma. Þá hefur Auto ehf. fengið lokafrest til 1. október til tiltektar að Setbergi á Svalbarðsströnd og dagsektir íhugaðar.

Heilbrigðisnefndin samþykkti í lok síðasta árs að leggja dagsektir á lóðarhafa yrði ekki bætt úr umgengni á lóðinni Hamragerði 15. Vegna formgalla í fundargerð frestaðist að hefja álagningu dagsekta, en álagning sekta hófst 26. febrúar. Á fundi nefndarinnar í júní var ákveðið að fresta frekari álagningu dagsekta þar sem nokkuð hafði áunnist varðandi tiltekt á lóðinni, eins og segir í fundargerð nefndarinnar. Jafnframt var lóðarhafi hvattur til að ljúka tiltekt þannig að ekki þyrfti að koma til frekari aðgerða af hálfu nefndarinnar. Ekki virðist þó hafa orðið framhald á tiltektinni því við skoðun á lóðinni þann 16. september kom í ljós að þrátt fyrir að bílum hafi fækkað nokkuð eru enn fjölmargir bílar og aðrir lausamunir innan lóðarmarkanna og lóðin til lýta fyrir umhverfið að mati nefndarinnar.

Heilbrigðisnefndin samþykkti því að hefja innheimtu dagsekta að nýju frá og með 1. október hafi ekki verið bætt úr fyrir þann tíma.


Hamragerði 15 á Akureyri. Myndin er tekin í lok maí. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Eitt bílhræ komið í gám

Heilbrigðisnefndin veitti Auto ehf. að Setbergi á Svalbarðsströnd viðbótarfrest til 1. ágúst til að ljúka hreinsun á lóðinni að Setbergi og fjarlægja bíla og aðra lausamuni sem blasa við frá þjóðvegi. Þessi hreinsun hefur ekki gengið eftir eins og vonir nefndarinnar stóðu til og við skoðun þann 2. september kom í ljós að aðeins eitt bílhræ var komið í gám sem staðið hefur á lóðinni frá því í júní. Þá kemur einnig fram að innan lóðarinnar sé enn mikið magn ökutækja, hjólbarða, véla og vélahluta í afar misjöfnu ástandi. Þá megi þar einnig finna spilliefni á borð við rafgeyma og víða innan lóðarinnar séu merki um olíumengun í jarðvegi.

Nefndin hefur því samþykkt að áminna fyrirtækið í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, vegna brota á samþykkt nefndarinnar um umgengni og þrifnað utan húss og brots á reglugerð um hollustuhætti og brots á reglugerð um meðhöndlun úrgangs. Nefndin samþykkti að veita fyrirtækinu lokafrest til 1. október til að ljúka tiltekt á lóðinni. Verði ekki brugðist við fyrir þann frest muni nefndin íhuga að beita dagsektum þar til úr verður bætt.


Þessi mynd var tekin í lok júní þegar byrjað var að safna saman bílhræjum á svæði í Ytra-Krossanesi sem eigandi Auto ehf. fékk tímabundin afnot af. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Fyrirtækið fékk í sumar leyfi fyrir tímabundin afnot í Ytra-Krossanesi, en þá kom skýrt fram í svari Jóns Birgis Gunnlaugssonar, verkefnastjóra umhverfismála á umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar, að það væri gegn því að eigandinn fjarlægði bíla af lóðum og lendum Akureyrarbæjar og kæmi annaðhvort í förgun eða í sölu. Samningurinn hljóðaði hins vegar ekki upp á að koma með bíla frá öðrum sveitarfélögum.