Fara í efni
Slippurinn - Akureyri

Hafa ekki brugðist við kröfum um tiltekt

Hamragerði 15, mynd tekin í maí á þessu ári. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hóf að nýju innheimtu dagsekta frá 1. október vegna umgengni á lóðinni að Hamragerði 15 á Akureyri og hefur samþykkt að leggja dagsektir á Auto ehf. að Setbergi á Svalbarðsströnd, 50 þúsund krónur á dag frá og með 28. október vegna brota á reglugerðum.

Heilbrigðisnefndin fjallaði um stöðu mála á þessum tveimur stöðum á fundi um miðjan október. Í fundargerð nefndarinnar segir meðal annars um stöðu mála að Hamragerði 15:

„Við skoðun á lóðinni þann 3. október sl. kom í ljós að ekki hafði verði brugðist við kröfum nefndarinnar um tiltekt á lóðinni og hafði bílum og öðrum lausamunum innan lóðarmarka fjölgað frá síðustu skoðun. Lóðin er því enn til lýta fyrir umhverfið. ... Heilbrigðisnefnd lýsir yfir vonbrigðum með að tiltekt á lóðinni sem hófst í sumarbyrjun skuli ekki hafa verið kláruð. Nefndin ítrekar kröfur sínar um að tekið verði til á lóðinni án frekari tafa. Dagsektir verða innheimtar þar til úr verður bætt.“

Auto ekki brugðist við kröfum

Á sama fundi fjallaði heilbrigðisnefndin um stöðu mála hjá Auto ehf. að Setbergi á Svalbarðsströnd. Nefndin áminnti fyrirtækið í september vegna brota á samþykkt um umgengni og þrifnað utanhúss og vegna brota á reglugerðum um hollustuhætti og meðhöndlun úrgangs. Þá var samþykkt að gefa fyrirtækinu lokafrest til 1. október til að ljúka tiltekt á lóðinni. 


Athafnasvæði Auto ehf. á Svalbarðsströnd fyrir nokkrum árum.

Akureyri.net fjallaði um viðskipti Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra og fyrirtækisins í lok september, en þar kom meðal annars fram að innan lóðarinnar væri mikið magn ökutækja, hjólbarða, véla og vélahluta í afar misjöfnu ástandi. Þá megi þar einnig finna spilliefni á borð við rafgeyma og víða innan lóðarinnar séu merki um olíumengun í jarðvegi.

Fram kemur í fundargerðinni frá 16. október að við skoðun á lóðinni þann 3. október hafi komið í ljós að ekki hafði verið brugðist við kröfum um tiltekt á lóðinni og hún því enn til lýta fyrir umhverifð. Þá sé meðferð spilliefna ábótavant og jarðvegur á svæðinu víða mengaður af völdum olíu. 

„Heilbrigðisnefnd harmar það að tiltekt á lóð fyrirtækisins skuli enn ekki vera lokið, þrátt fyrir að fyrirtækinu hafi nú þegar verið veitt áminning sem er vægasta þvingunarúrræði ... Að mati nefndarinnar hafa ítrekuð tilmæli og nú síðast væg þvingunarúrræði ekki skilað tilætluðum árangri og því nauðsynlegt að ganga harðar fram í þeim tilgangi að knýja fram úrbætur.“ Nefndin hefur því samþykkt að leggja dagsektir á fyrirtækið að upphæð 50 þúsund krónur á dag frá og með 28. október.