Fara í efni
Skipulagsmál

Lærðu að nota nalaxone nefúða, það getur bjargað lífi

Ofskömmtun vegna lyfjanotkunar getur bæði átt sér stað vegna langtíma verkjameðferðar þar sem notuð eru ópíóíðalyf og vegna notkunar á ópíóíðum sem vímugjafa. Dæmi um sterk verkjalyf eru morfín, OxyContin, Contalgin, Fentanyl, Tramadol, Methadone og Bupenorphine.

Undanfarin ár hefur talsvert verið rætt um vaxandi ópíóðíavanda á Íslandi. Ástæða er til að hafa áhyggjur af stöðunni enda liggur fyrir að margt fólk deyr langt fyrir aldur fram vegna ofskömmtunar. Nauðsynlegt er að auka þekkingu almennings á réttum viðbrögðum.

Samkvæmt tölfræðigögnum frá embætti landslæknis voru 47 lyfjatengd andlát á landsvísu árið 2021. Það höfðu aldrei látist fleiri vegna lyfjaeitrana á einu ári á Íslandi.

Á árunum 2020 – 2022 létust 20 einstaklingar á aldrinum 18-29 ára og 43 einstaklingar á aldrinum 30-44 ára úr lyfjaeitrun. Alls eru það 63 einstaklingar sem náðu ekki að verða 45 ára.

Heildarfjöldi lyfjatengdra andláta þessi þrjú ár var 119.

Nú hafa verið birtar bráðabirgðatölur fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2023. Samkvæmt þeim voru lyfjatengd andlát á landsvísu 28. Aldrei hafa verið skráð fleiri lyfjatengd andlát fyrstu sex mánuði árs. Tölur fyrir seinni hluta ársins hafa þó ekki verið birtar og því liggur heildarfjöldi andláta árið 2023 ekki fyrir.

Flest tilfelli ofskömmtunar verða fyrir slysni. Við getum öll fundið okkur í þeirri stöðu að þurfa að aðstoða einstakling í kjölfar ofskömmtunar.

Árið 2022 var Nyxoid, sem er lyf í nefúðaformi, gert aðgengilegt og gjaldfrjálst fyrir öll sem á því þurfa að halda. Nyxoid inniheldur virka efnið naloxone sem getur stöðvað verkun ópíóíða tímabundið og þannig komið í veg fyrir andlát vegna ofskömmtunar ópíóíða. Lyfið er notað sem neyðarmeðferð við ofskömmtun og er hvorki hættulegt né ávanabindandi. Lyfið getur hins vegar valdið fráhvarfseinkennum hjá þeim sem ánetjast ópíóíða. Það er því nauðsynlegt að koma viðkomandi undir læknishendur í kjölfar notkun þess.

Rauði krossinn leggur sig fram við að breiða út fræðslu um Nyxoid nefúðann og rétt viðbrögð við ofskömmtun ópíóíða. Skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins á Íslandi, Frú Ragnheiður og Ylja neyslurými, ruddu brautina fyrir dreifingu Nyxoid nefúðans til einstaklinga sem nota ópíóíða sem vímugjafa. Við lok árs 2023 hafði verið dreift um 1.400 pökkum af nefúðanum á landsvísu í gegnum verkefnin tvö.

Félagið hefur í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið útbúið vefnámskeiðið Skyndihjálp og naloxone sem er opið öllum á heimasíðu félagsins. Þann 12. júní nk. stendur Rauði krossinn við Eyjafjörð að opnu og gjaldfrjálsu verklegu námskeiði sem kemur í kjölfar vefnámskeiðsins Skyndihjálp og naloxone. Um klukkustundar langt námskeið er að ræða og öll sem hafa lokið vefnámskeiðinu eru velkomin.

Að námskeiðinu loknu munu þátttakendur vita undir hvaða kringumstæðum og hvernig á að nota Nyxoid nefúðann til þess að bjarga mannslífi. Allir þátttakendur munu einnig fá afhentan Nyxoid nefúðann.

Við hvetjum öll sem nota sjálf eða umgangast einstaklinga sem nota ópíóíða lyf, hvort heldur sem verkjalyf eða vímugjafa, til að kynna sér þetta vefnámskeið og þiggja boð okkar um að mæta í verklega hlutann.

Hægt er að skrá sig á námskeiðið inn á skyndihjalp.is eða hringja í 570 4270.

Ingibjörg Halldórsdóttir er deildarstjóri Rauða krossins við Eyjafjörð