Sjúkrahúsið á Akureyri
„Það lá beinast við að fara aftur heim“
02.02.2025 kl. 10:30
Elfar Árni Aðalsteinsson með fjölskyldunni sinni. Eiginkonunni Rögnu Baldvinsdóttur og dætrunum Írisi Björk, Kareni Ósk og Glódísi Helgu. Mynd: Rakel Hinriksdóttir
„Þetta varð bara klassískt stórmeistarajafntefli,“ segir Elfar Árni Aðalsteinsson við blaðamann Akureyri.net eftir leik Völsungs og KA í Boganum í gær, laugardaginn 1. febrúar. Þetta var fyrsti leikurinn í riðli 2, A deild í Lengjubikarnum og fór 1-1. KA komst yfir í upphafi leiks með marki frá Hans Viktori Guðmundssyni, en svo jafnaði Elfar Árni leika á 23. mínútu með marki gegn sínum gömlu félögum. Fleiri mörk urðu ekki skoruð, en leikurinn markaði ákveðin kaflaskil í knattspyrnuferli Elfars.
Leikurinn var fyrsti leikur Elfars í grænu eftir að hann fór frá KA, þar sem hann hefur verið síðan 2015. Hann á að baki glæstan feril hjá KA, en hann hefur spilað 212 leiki og skorað í þeim 73 mörk. Knattspyrnudeild KA heiðraði Elfar fyrir leikinn, og kvaddi hann formlega.
„Ég er búinn að eiga frábær ár í KA en ég fann að þyrfti að prófa eitthvað nýtt. Það lá beinast við að fara aftur heim,“ segir Elfar, en hann er Húsvíkingur og alinn upp í Völsungi. Elfar ætlar þó ekki að flytja til Húsavíkur með fjölskylduna, ekki enn að minnsta kosti, segir hann. „KA eru búnir að vera svo góðir að leyfa mér að æfa áfram með þeim og ég hef svo verið að skutlast á Húsavík á æfingar.“
„Það hefur alltaf verið inn í myndinni síðan ég fór á sínum tíma, að koma heim aftur og reyna að gera það áður en ég væri alveg búinn,“ segir Elfar að lokum, en hann kvaðst mjög ánægður með tímamótin og að byrja endurkomu sína í Völsung með marki og fyrsta stiginu í Lengjubikarnum.
Völsungur spilar næst útileik gegn Fram, á laugardaginn kemur, en KA heimsækir Njarðvík á sunnudaginn eftir viku.