Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Blaklið KA með sigra og tap í liðinni viku

Miguel Mateo og samherjar hans í KA unnu topplið Hamars á heimavelli. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Karlalið KA í blaki vann topplið Hamars þegar liðin mættust í KA-heimilinu á föstudagskvöld. Kvennalið KA vann Þrótt Fjarðabyggð sama kvöld, en hafði áður beðið ósigur gegn Völsungi tveimur kvöldum fyrr. KA-liðin eru bæði í toppbaráttu í blakinu, konurnar efstar og karlarnir í 2. sæti.

KA áfram á toppnum

Kvennalið KA mátti þola 3-0 tap þegar KA-konur sóttu Völsunga heim á Húsavík síðastliðið miðvikudagskvöld. Leikurinn var þó jafn og spennandi og unnu heimakonur í Völsungi hrinurnar með tveggja til fjögurra stiga mun. Þessi lið eru í harðri baráttu á toppi deildarinnar.

Á föstudagskvöld tóku KA-konur síðan á móti Þrótti Fjarðabyggð og náðu þá vopnum sínum aftur og unnu örugglega, 3-0.

Eftir þessa tvo leiki, tap og sigur, í liðinni viku er KA þó enn á toppi deildarinnar, en á í harðri baráttu við Völsung eins og áður sagði, auk þess sem Afturelding er ekki langt undan. KA hefur náð sér í 35 stig, Völsungur er með 34 og Afturelding 32. Þessi lið hafa öll leikið 14 leiki.

Sigur á toppliðinu

Karlalið KA vann efsta lið Íslandsmóts karla, Unbroken-deildarinnar, á föstudagskvöldið þegar liðin mættust á Akureyri. KA vann fyrstu tvær hrinurnar nokkuð örugglega, en Hamar vann þá þriðju með tveggja stiga mun. KA tryggði svo sigurinn með 25-20 sigri í fjórðu hrinunni. 

  • Unbroken-deild karla í blaki
    KA - Hamar 3-1 (25-18, 25-16, 23-25, 25-20)
    Tölfræði leiksins
    Staðan í deildinni

Með sigrinum minnkaði KA forskot Hvergerðinga á toppnum niður í þrjú stig. Hamar er áfram á toppi deildarinnar þrátt fyrir tapið fyrir KA, en KA kemur í humátt á eftir sem og Þróttur úr Reykjavík. Hamar er með 39 stig, KA 36 og Þróttur R. 35, öll eftir 16 leiki. Nokkuð er síðan í fjórða liðið, sem er Afturelding með 25 stig.