Blöndulína: Frestur rennur út í dag
Frestur til að koma ábendingum á framfæri vegna nýrrar tillögu að breytingu á aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 vegna Blöndulínu 3 rennur út í dag.
Samkvæmt drögum að breytingu á aðalskipulagi vegna staðsetningar þessar umtöluðu háspennulínu er gert ráð fyrir því að um loftlínu verði að ræða. Ýmsir, meðal annars íbúar í Giljahverfi, eru mjög mótfallir því að strengurinn verði loftlína og krafa bæjarins hefur raunar verið að strengurinn verði lagður í jörðu.
- Ábendingar skulu sendar í skipulagsgátt – smellið hér til þess
Skipulagsráð bæjarins samþykkti í desember tillöguna um breytingu á aðalskipulagi sem auglýst hefur verið. Athygli vakti á dögunum að umhverfis- og mannvirkjaráð bæjarins er á öndverðum meiði; ráðið vill að háspennulían verði lögð sem jarðstrengur í bæjarlandinu og gekk raunar svo langt að leggja til að möguleiki á loftlínu verði felldur út úr tillögunni sem skipulagsráð samþykkti og var auglýst.
Meðal þeirra sem hafa sent inn athugasemdir í skipulagsgátt eru hjónin Eva Hlín Dereksdóttir og Ágúst Torfi Hauksson sem búa efst í Giljahverfi. Bæði eru verkfræðingar að mennt og athugasemdirnar áhugaverðar.
Eva Hlín segir meðal annars:
- Fulltrúar í skipulagsráði og bæjarstjórn mega gjarnan spyrja sig: Ef þeir gætu valið um tvö eins framtíðarhús fyrir fjölskyldu sína, annað væri staðsett 500 m frá háspennulínum en hitt víðsfjarri. Hvort húsið myndu þeir velja?
- Ekki reyna að segja okkur að þessi framkvæmd hafi ekki áhrif á verð og seljanleika fasteigna okkar.
- Ýmsar greinar hafa verið ritaðar um áhrif segulsviðs á heilsu fólks, en jafnframt hefur reynst erfitt að sanna áhrifin. Mér finnst Akureyrarbæ bera skylda til að leyfa íbúum að njóta vafans. Það eru meiri líkur en minni að áhrifin séu til staðar þó svo að ekki sé hægt að sanna þau með óyggjandi hætti, rétt eins og áhrif myglu, hávaða og plastagna svo fátt eitt sé nefnt.
- Á vef Akureyrarbæjar má finna umsögn skipulagsráðs um mat á umhverfisáhrifum Blöndulínu, dagsett 10.maí 2022. Umsögnin er undirrituð af Pétri Inga Haraldssyni skipulagsfulltrúa. Í umsögninni er lýst yfir áhyggjum af skertri landnotkun bæjarins, sjónmengunar sem og hávaða. Í niðurlagi kemur eftirfarandi fram orðrétt:
„Samantekið að þá er það eindreginn vilji bæjarstjórnar Akureyrarbæjar og stefna að Blöndulína 3 verði lögð í jarðstreng frá tengivirki við Rangárvelli og út að sveitarfélagamörkum við Hörgársveit, eða eins langt og mögulegt er. Er það í samræmi við stefnu stjórnvalda í uppbyggingu flutningskerfa, sbr þingsályktunartillögu nr. 26/148 sem og Aðalskipulag Akureyrarbæjar 2018-2030.“
- Umsögnin var tekin fyrir á bæjarstjórnarfundi þennan sama dag, 10. maí 2022. Eftirfarandi er skráð í fundargerð:
Bæjarstjórn samþykkir framlagða tillögu að umsögn með þeim breytingum sem ræddar voru á fundinum. Bæjarstjórn gerir athugasemd við að í umhverfismatsskýrslu séu áhrif loftlínu á vistgerðir, fuglalíf, hljóðvist, ásýnd og útsýnisupplifun mögulega vanmetin. - Nú ríflega 2 árum seinna er breyting á aðalskipulagi afgreidd út úr skipulagsráði þvert á þessar bókanir og umsagnir skipulagsráðs. Ég fer fram á að skipulagsráð og bæjarstjórn útskýri fyrir okkur íbúum hvað veldur þessum straumhvörfum og hvernig kjörnir fulltrúar og starfsmenn Akureyrarbæjar vinni með þessum breytingum að hagsmunum íbúa.
- Mann grunar að þrýstingur frá Landsneti valdi þessari stefnubreytingu fremur en hagsmunir okkar íbúa en það getur tæplega verið ábyrgð Akureyringa eða íbúa Giljahverfis að tryggja afhendingaröryggi rafmagns um landið. Það hlýtur að vera á ábyrgð Landsnets að kanna allar mögulegar lausnir og finna lausn sem færir allar háspenntar loftlínur í að amk 1 km fjarlægð frá íbúabyggð.
Mynd: Þorgeir Baldursson
Gæti bakað bænum bótaskyldu?
Ágúst Torfi segir meðal annars:
- Í huga undirritaðs er ljóst að vinna þarf þetta mál betur og kanna til hlýtar þá möguleika sem eru í stöðunni, m.a. þann möguleika að með launaflsvirki mætti leggja jarðstreng upp að Kífsá eins og núverandi skipulag gerir ráð fyrir. Þannig má koma Blöndulínu að Rangárvöllum án þess að það skerði lífsgæði íbúa og rýri framtíðar nýtingu bæjarlandsins – landi sem Akureyrarbær er ekki sérlega ríkur af.
- Akureyrarbær hefur í gegnum árin haldið á lofti mikilvægi þess að línur fari í jörð í þéttbýli og í námunda við þetta byggð enda haft haldbær og góð rök fyrir þeirri afstöðu.
- Málstaður okkar er góður og núverandi skipulag, þar sem gert er ráð fyrir jarðstrengjum, virðist ekki þurfa breytinga við.
- Ég leggst eindregið gegn áformum um að Blöndulína fari í loftlínu ofan Móa og Giljahverfa. Tel að þar væri mikið óheilla spor stigið sem myndi skerða verulega lífsgæði íbúa (sjón- og hljóðmengun auk mögulegra heilsufarslegra áhrifa), draga úr möguleikum Akureyrarbæjar til landnýtingar og gæti bakað Akureyarbæ bótaskyldu vegna neikvæðra áhrifa á verð og seljanleika eigna í nágrenni línunnar.
Smellið hér til að sjá umsagnir sem sendar hafa verið í skipulagsátt