Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Sameiginleg stöð SVA og Strætó við Glerána

Bæjarstjórn Akureyrarbæjar samþykkti nú í vikunni breytingu á deiliskipulagi við Glerá, frá stíflu til sjávar, sem felur í sér að skilgreind er ný jöfnunarstoppstöð á móts við verslunarmiðstöðina Glerártorg, norðan Borgarbrautar, á bakka Glerár milli hringtorgs og Hörgárbrautar. Þar er hvort tveggja gert ráð fyrir athafnasvæði fyrir Strætisvagna Akureyrar og Strætó, það er landsbyggðarstrætisvagnana.

Ekki var þó einhugur í bæjarstjórn um þessa deiliskipulagsbreytingu, eða að minnsta ekki kosti á þessum tímapunkti, því hún var samþykkt með átta atkvæðum, en Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson (B-lista) og Hilda Jana Gísladóttir (S-lista) sátu hjá og lögðu fram bókanir vegna málsins.

Sátu hjá vegna ótímabærrar ákvörðunar

Þremenningarnir sátu einnig hjá við afgreiðslu á breytingu á aðalskipulagi skipulagsreits sem afmarkast af Borgarbraut, Glerárgötu, Þórunnarstræti, Byggðavegi og Klettaborg (VÞ6), en í þeirri breytingu felst að landnotkun svæðisins breytist í miðsvæði þar sem auk uppbyggingar verslunar og þjónustu verði heimilt að byggja allt að 250 íbúðir. Þar kemur einnig fram að heimilt verði að byggja umrædda jöfnunarstöð strætó á svæði sem er 0,2 hektarar að stærð norðan Borgarbrautarinnar. Þau lýstu sig samþykk þeirri breytingu sem gerð er á aðalskipulaginu, en sátu hjá „vegna ótímabærrar ákvörðunar um staðsetningu jöfnunarstöðvar Strætisvagna Akureyrar á bakka Glerár,“ eins og segir í bókun þeirra. 


Skipulagsuppdráttur sem sýnir breytingarnar sem bæjarstjórn hefur samþykkt vegna jöfnunarstöðvar fyrir strætisvagna. Sleppistæði fyrir notendur landsbyggðarstrætó eru austast á reitnum, en göngustígur í framhaldi af göngubrú yfir Glerá liggur á milli sleppistæðisins og athafnasvæðis sem ætlað er vögnunum sjálfum og farþegum þeirra. Skjáskot úr deiliskipulagstillögunni.

Meðal annars komu fram þau rök að í tengslum við þessi áform vanti að fram fari umferðaröryggismat sem tekur þessa framkvæmd inn í myndina og að greina þurfi kostnað við fyrirhugaðar framkvæmdir áður en ákveðið yrði að breyta skipulagi fyrir þessi áform. Sunna Hlín lýsti einnig efasemdum um að umrædd framkvæmd rúmist á svæðinu án kostnaðarsamra aðgerða. 

Engar upplýsingar komu þó fram í umræðum á bæjarstjórnarfundinum né í gögnum sem fylgja fundargerðinni hve mikið umrædd framkvæmd gæti kostað.

Landsbyggðarstrætó bætist við

Akureyri.net fjallaði fyrst um þessi áform í júlí 2023 þegar umhverfis- og mannvirkjaráð samþykkti að stefna „að flutningi jöfnunarstöðvar að Glerártorgi á næstu 1-2 árum,“ eins og það var orðað í fundargerð á þeim tíma. Hér er, eins og áður hefur komið fram í fréttum, átt við tímajöfnunarstöð fyrir strætisvagna eða miðstöð vagnanna í daglegum akstri, eins og mætti lýsa hlutverki þessarar stöðvar.

Fram til þessa hefur aðeins komið fram í gögnum að jöfnunarstöð fyrir vagna SVA verði flutt á umræddan reit, meðal annars í minnisblaði frá 13. desember, en hugmyndin hefur síðan þróast á þá vegu að þar verði ekki aðeins gert ráð fyrir biðstöð og aðstöðu fyrir Strætisvagna Akureyrar heldur einnig fyrir landsbyggðarstrætisvagna (Strætó) sem nú þjónusta farþega á mjög takmörkuðu svæði á útskoti úr Strandgötunni við Hof. Þessi breyting kemur fram í greinargerð deiliskipulagsbreytingar dagsettri 16. janúar, en kemur meðal annars fram eftirfarandi:

  • Jöfnunarstöð SVA er skilgreind vestan Hörgárbrautar og norðan Borgarbrautar. Svæðið rúmar þrjá strætisvagna og þrjár bifreiðar landsbyggðarstrætós.
  • Við jöfnunarstöðina er gert ráð fyrir kaffistofu og snyrtingu fyrir starfsmenn SVA og Strætó auk spennistöðvar. Einnig er þar gert ráð fyrir biðskýli og snyrtingu fyrir almenning.
  • Sex sleppistæðum fyrir notendur landsbyggðarstrætó hefur verið komið fyrir austan jöfnunarstöðvar.


Þessi mynd er tekin norðan Glerárinnar og sýnir svæðið sunnan við hana þar sem nú er í deiliskipulagi gert ráð fyrir aðstöðu fyrir SVA og Strætó. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Gangbrautarljós, undirgöng eða stígur undir brú?

Við afgreiðslu á þessari deiliskipulagsbreytingu urðu einnig umræður um öryggi gangandi vegfarenda yfir Hörgárbrautina. Áfram er gert ráð fyrir göngum undir Hörgárbraut norðan brúarinnar í skipulaginu, að vilja skipulagsráðs, eins og Akureyri.net greindi frá fyrir nokkrum dögum.

Hörgárbrautin er þjóðvegur í þéttbýli, hluti af hringveginum, og því á ábyrgð Vegagerðarinnar. Jón Hjaltason (óháður) kvaðst þó halda að þau göng muni seint koma því „að fenginni reynslu þá tortryggjum við Vegagerðina,“ eins og hann orðaði það. Þá eru einnig uppi hugmyndir um hringtorg á þessum gatnamótum, en einnig óvíst hvenær af því gæti orðið.

Göngustígurinn úr Holtahverfi að Hörgárbrautinni. Verður hann í framtíðinni undir Hörgárbrautinni, undir Glerárbrúnni eða verða báðir kostir fyrir valinu? Hvort tveggja er möguleiki samkvæmt núverandi skipulagi. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Á hinn bóginn er einnig í umræðunni að göngustígur komi undir brúna sjálfa að norðanverðu, en einnig komu fram efasemdir um þá framkvæmd, meðal annars vegna vatnshæðar í flóðum, ísíngar sem þar gæti myndast og fleira. Sunna Hlín benti á að eins og málið hafi verið kynnt í skipulagsráði muni gangbrautin yfir Hörgárbraut, á móts við Skarðshlíð 1 og Lyngholt 14, víkja í framtíðinni, hvort sem göng undir götuna, stígur undir brúna eða hvort tveggja verður fyrir valinu. Hún lagði jafnframt áherslu á að kanna þyrfti vilja íbúanna til útfærslu á þessu máli.

Fleiri valkostir í stöðunni

Sunna Hlín og Hilda Jana Gísladóttir minntu báðar á að fleiri valkostir væru til staðar miðsvæðis í bænum, til dæmis norðan ráðhússins þar sem fyrir nokkru voru uppi hugmyndir um að byggja samgöngumiðstöð. 

Bókun Sunnu Hlínar og Gunnars Más er svohljóðandi: 

„Við teljum okkur ekki geta samþykkt deiliskipulagsbreytingar sem gera ráð fyrir jöfnunarstoppistöð Strætisvagna Akureyrar á bakka Glerárinnar á þessum tímapunkti. Það sem upp á vantar, að okkar mati, svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun, er m.a. að fram fari umferðaöryggismat, að unnin sé kostnaðaráætlun fyrir uppbyggingu á þessum stað og að öruggt sé að jöfnunarstoppistöð og allt sem henni fylgir rúmist með góðu móti á þessu svæði, án kostnaðarsamra aðgerða. Þá eru fleiri staðsetningar sem koma til greina, miðsvæðis í bænum, og því hefðum við viljað frekari umræðu og samanburð á ólíkum kostum. “

Bókun Hildu Jönu Gísladóttur (S) er svohljóðandi: 

„Ég hefði talið heppilegri kost að umrædd jöfnunarstoppistöð hefði verið staðsett norðan ráðhúss, líkt og gert er í gildandi skipulagi, ekki síst í ljósi umferðarflæðis- og öryggis, sem og vegna framtíðar stækkunarmöguleika. Hins vegar er mikilvægt að loks sjái fyrir endann á því að flytja miðbæjarstoppistöð frá núverandi staðsetningu þannig að hægt verði að leggja áherslu á uppbyggingu í miðbænum. Þá er ákaflega ánægjulegt að við umrædda jöfnunarstoppistöð verði einnig aðstaða fyrir landsbyggðastrætó og hann hverfi frá núverandi staðsetningu sem hefur verið óheppileg. Þá er einnig ánægjulegt að þar sé gert ráð fyrir almenningssalernum.“