Fara í efni
Sigmundur Ernir

Tómatar og gúrkur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 40

Eitthvert árið upp úr 1970 tóku að berast torkennilegir ávextir inn í búrið hjá foreldrum mínum í Espilundi, rauðir jafnt sem grænir – og heldur vatnskenndir.

Okkur krökkunum á heimilinu var ekki sagt frá þessum tíðindum nema með nokkrum eftirgangsmunum, en kassarnir af þessu væru þó komnir til að vera um ókomin ár, svo mikið væri víst.

En þetta væru tómatar og gúrkur, gátu þau svo loksins látið úr úr sér, faðir minn og mamma, því Katý og Sverrir, stórvinir þeirra, hefðu flyst búferlum suður í Laugarás í Biskupstungum og byrjað að rækta þar matvæli. Við myndum fá skammtana senda í regluvís.

En þetta er ekki svo gott, sagði Gunni bróðir, heldur eldri en ég og ævinlega bragðvísari eftir því sem árin okkar liðu fram á öld, og eiginlega ólystugt, bætti hann við af meðfæddri hreinskilni sinni. Sem var nú ekki öllum að skapi.

En við systkinin samsinntum dómi hans. Því hann var elstur okkar.

Og var þá komin upp sú staða á heimilinu á Syðri-Brekkunni að nóg var til af aðsendum mat sem enginn vildi borða. Það hafði ekki gerst áður. Hvorki í efri bænum né í þeim neðri, eins og sagt var.

Húsmóðirin á heimilinu gafst samt ekki upp. Það yrði að koma þessu út. Og eftir að hafa náð langlínusambandi við Katý sína í Laugarási var farið að skera þetta niður á brauð með osti, svo úr varð smörrebröd af breiðari gerðinni.

En þannig tókum við grænmetið að sunnan í sátt.

Og halda margir að þaðan í frá hafi Akureyri orðið höfuðborg hinna smurðu tertna með agúrkum og tómötum til skrauts. Sem er nokkuð nærri lagi.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: FORD BRONCO

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Draugagangur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
11. nóvember 2024 | kl. 11:30

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30

Innskotsborð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. október 2024 | kl. 11:30

Berrasssa

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
21. október 2024 | kl. 11:30

Ylfingur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. október 2024 | kl. 11:30