Fara í efni
Sigmundur Ernir

Tekið slátur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 55

Það gerðist á annars hæglátum haustdegi að bílskúrinn heima á Syðri-Brekkunni breyttist í blóðvöll. En það var komið að því árlega, sjálfri sláturgerðinni, og háir sem lágir bundu á sig svuntur og settust á kolla við að sauma vambir og garnir sem ýmist nýttust fyrir pylsur eða þaðan af sverari sperðla.

Í einni svipan umhverfðist bílskúrinn úr hljóðlátri geymslu í háværan vinnslusal þar sem ættboginn sat í hring og gerði að innmatnum. Og ekkert minna var í húfi en að sefa búksorgir stórfjölskyldunnar yfir dimman og langan veturinn, þar til gróðurinn vaknaði á ný.

Ég fékk að hræra í blóðinu í bala sem var að sverari gerðinni, en mér var samt ekki treyst fyrir því að blanda mjölinu út í grautinn og þaðan af síður mörinni, en þetta væru hlutföll sem ættuð væru langt aftur í aldir. Og engum unggæðingi væri treyst fyrir því að fylgja þar settum áttum.

Amma mín í móðurættina var í sinni deild og engri annarri. En það ætti að hafa það til helminga í sínum mat, mörina og blóðið, fituna og lifrina. Og öðruvísi væri ekkert bragð að þessu, og hvað þá nokkur orka fyrir athæfi dagsins.

Sama gilti um afa minn í föðurættina. En súrinn ætti að svíða í augun. Og sviðasulta stæði ekki undir nafni nema hún tæki vel í tunguna.

Annað var eftir þessu. Og það var tekist á um matseld aldanna í bílskúrnum á Brekkunni, en síðari tíma fólk væri að ganga af göflunum af því að ekkert bragð væri lengur að hafa af innmatnum. Hvað þá hæfileg remma, og nokkur andnauð, ef því var að skipta.

En svona kom þá nútíminn á móts við okkur Brekkusniglana. Við kunnum ekki lengur að búa til hæfilega feitan mat, ellegar að sterkjuna legði fráleitt nógu vel af honum, svo augun næðu því vart að flóa í tárum.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SNJÓHÚSIN

Snjóhúsin

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
02. desember 2024 | kl. 11:30

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Draugagangur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
11. nóvember 2024 | kl. 11:30

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30

Innskotsborð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. október 2024 | kl. 11:30

Berrasssa

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
21. október 2024 | kl. 11:30