Fara í efni
Sigmundur Ernir

Stillansar

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 32

Það var alltaf verið að byggja. Nýju hverfin risu út og suður Brekkuna og norður í Þorpi og niður á eyri. Og þar af leiðandi heyrðust hamarshöggin um allan bæ, enda var svo til eilíflega verið að klambra saman stillönsum.

En öðruvísi var ekki slegið upp mótum svo steypan gæti flætt um járnabundið holrúmið, og eftir stæðu veggir og hólf fyrir dyr og glugga þegar búið var að slá utan af. Og naglhreinsa allt það heila smíðarí og skrapa af fellingar.

Öll sú atburðarás var þó bara aukaatriði í huga okkar krakkanna sem voru að alast upp á tímum sístækkandi hverfa um allan bæ, því í okkar augum voru stillansar einhver skemmtilegustu leiktæki sem hægt var að hugsa sér. En hvergi voru eltingaleikirnir jafn ofsafengnir og spennandi og þegar henst var eftir þessum timbruðu gólfum og hólfum, svo jafnvel var hægt að sveifla sér með einu handtaki á milli hæða, eins og Tarzan inni í frumskógum Afríku – og jafn furðulegt sem það var, lentu langflestir á fótunum, altso heima á Akureyri.

Þetta athæfi okkar var náttúrlega bannað. Og þótti þess utan lífshættulegt. En þar var líka kominn eftirsóknin. Nefnilega sú að gera eitthvað utan laga og reglna, og stelast svolitla stund til að ögra heimi fullorðinna.

Og þess vegna tognaði nú talsvert úr manni uppi á akureyskum vinnupöllum, ef lögguna bar að garði, en hún myndi hvort eð er aldrei ná manni, að maður vissi í sinni sök í flatbotna strigaskónum og stakk þegar af upp í efstu grind – og ullaði framan í yfirvaldið. Því svona er æskan. Ögrandi og ævintýrarík. Og til í allt.

Veturnir voru samt bestir. Þá sjaldan að stillansar stóðu enn þá uppi var snarast upp í þá hæstu og svifið til móts við næstu snjódrift. Í öskrandi hamingju.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: BLÝDÁTAR

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóhúsin

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
02. desember 2024 | kl. 11:30

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30