Fara í efni
Sigmundur Ernir

Skíðaferðir

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 26

Þegar vetraði, og það klikkaði raunar aldrei í Eyjafirði æsku minnar, voru skíðin tekin niður af háaloftinu í bílskúrnum. En þangað fóru þau ekki upp á ný fyrr en birkið byrjaði að bruma, sem var ótvírætt merki sumars.

Þannig lágu þær saman, árstíðirnar tvær, kenndar við kulda og hita, og ekki fleirum til að dreifa í dalnum langa sem ristir eyjuna inn að miðju landsins.

Svo það var farið í Fjallið. Í fjúki jafnt sem fallegri veðrum. En rútan hirti mann upp á horninu við grísabólið í Mýrarvegi, með gömlu skíðin hans Gunna bróður á öxlunum, útbúin teygjubindingum og táklemmu, sem var tækni þess tíma.

En það sem maður gat rennt sér. Eins hratt og færið leyfði. Og sömuleiðis í samræmi við brattann, auðvitað. Helst ofan af brún, ef veður leyfði að vaða þangað um þykkan púðursnjóinn. Og svo var bara látið arka að auðnu, steypt sér fram af í þægilegri vissu þess að skíðaskórnir sætu traustir á tréverkinu.

Mest um verðar voru ferðirnar í brekkur næstu bæjarfélaga. En ekki var unnt að hugsa sér meiri ævintýri æskunnar. Og alltaf siglt með Drangi. Af því að vegirnir voru ófærir. En það tók því ekki að ryðja þá. Kófbylina lægði aldrei langt fram á útmánuði. Einatt miklu síðar. Því sautjándi júní var stundum í hættu.

En við fórum oftast til Siglufjarðar. Skarðsdalurinn varð okkar annar heimavöllur. Og þá var gist á Hóli. Þar finnst mér eins og ég hafi fengið sömu kjötsúpuna oftar en á nokkru öðru byggðu bóli. Að ekki sé talað um kakó með vel þeyttum rjóma, þessum eina sanna sem bráðnar ekki strax í varmanum af drykknum.

Á Hóli var vaninn sá að verða veðurtepptur. Af því að Drangur komst ekki til hafnar. Slík var oftast ókyrrðin. Og heima á Akureyri ályktuðu foreldrar manns sem svo, að fyrst maður skilaði sér ekki heim, væri ófært með öllu.

Og það var ekkert hringt á Sigló til að spyrja tíðinda. Því enginn sími var á Hóli.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: ÞÚFNAGANGA

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóhúsin

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
02. desember 2024 | kl. 11:30

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30