Fara í efni
Sigmundur Ernir

Sígildar sögur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 23

Í móðukenndri minningunni lærði ég að lesa í eldhúskróknum hjá Guðrúnu ömmu í Gilsbakkaveginum. Þar tókst mér að tengja saman stafina framan á belgvíðri kokkamaskínunni sem stóð harla gleið á fjórum útskeifum fótum.

Þó var ekki hlaupið að því að kveða að þeim fyrir lítinn strák. Það þurfti að mæna á þá svo dögum skipti til að átta sig á samhenginu. Og leggja saman samhljóða og sérhljóða. Sem er ekki endilega á færi fávísra snáða.

En þar sem ég sat á rassinum framan við þetta þarfaþing, gat ég á endanum stamað út úr mér öllu heila orðinu. Ra-fha, eða Raf-ha, allt eftir því hvernig tönnunum var þrýst á innanverðar varirnar.

Og í mínum augum var merking orðsins æði augljós, ef út í það er farið. Rafha merkti mat, heitan og ilmandi, ef ekki hreinlega lagkökur í eftirmiðdaginn.

Þessi áfangasigur æsku minnar, að fatta fyrsta orðið, og það án utanaðkomandi aðstoðar, hleypti mér auðvitað kapp í kinn. Ég vissi af myndasögum Jóns frænda í hillunni í herbergi hans – og nú væri ekkert því til fyrirstöðu að leggja rakleiðis á djúpið. Það lægi beinast við að öðlast skilning á þeim ríkulega heimslitteratúr.

Svo ég laumaði með mér stöku blaði úr kamesi móðurbróðurins og læddist með eintakið inn í búr – og lokaði vandlega að mér, gott ef lyklinum var ekki á stundum snúið inni í lásnum. En þá hófust líka endaleysur ævintýranna, frá einu orði til annars, enda rís sagan aldrei hærra en skilningurinn sem færir henni líf.

Og það átti við um mig. Því aldrei hefur lesskilningur eins og sama piltsins eflst að slíkum mun og eftir að hann gat sökkt sér ofan í Sígildar sögur. Og hver og einn eilífðarvinurinn af öðrum, Davy Crocket, Dísa í Undralandi, Jóhanna af Örk, Nelson flotaforingi, Stikilsberja-Finnur og William Tell, komu honum til manns.

En þannig geta heimarnir opnast. Jafnvel bara inni í bítibúri.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: HEKLUPEYSUR

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóhúsin

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
02. desember 2024 | kl. 11:30

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30