Oz
AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 47
Enda þótt sumarið liði og komið væri fram á kaldahaust gat Sigrún systir ekki enn þá unað litlum bróður sínum yfirsjónina. Gilti einu þótt hver mánuðurinn af öðrum hyrfi burtu úr augum manns og eyrum – og atburðurinn væri farinn að fúna í hvelfingum hugans; hún gat bara ekki fyrirgefið flónskapinn, og hafði raunar ekki upplifað annað eins asnaprik í uppvexti sínum, jafn hugumprúð og jafnstillt og stúlkan þótti að allri sinni innangerð.
En hún hafði sumsé fengið þann starfa að fara á þjóðhátíðarsamkunduna niðri á Ráðhústorgi með fjórum árum yngri guttanum og gæta hans í mannfjöldanum. Það væri viturlegt að halda þéttingsfast í fingur hans. Hann þætti jú nokkuð uppátækjasamur. Og helst til mikill af sjálfum sér, eins og það hét.
En segir þá af þjóðargersemunum og hjónakornunum Bessa Bjarnasyni og Margréti Guðmundsdóttur, þeim frægustu leikurum Íslands um þetta leyti, sem eru komin til höfuðstaðar hins bjarta norðurs til að kynna fyrir norðanmönnum næstu uppfærslu Þjóðleikhússins á Galdrakarlinum í Oz, því sígilda leikverki sem tímans tönn mun aldrei vinna á.
Og hvort einhver vilji ekki koma upp á pall og leika Tótó, hundinn í leikverkinu, spyrja þau eyfirska áhorfendurna, si sona, og það er strákur úr Álfabyggðinni sem réttir fyrstur upp hönd, Sigrúnu systur hans til agalegs ama. Því hún sér óðara á eftir bróðurnum upp á brík. Leikandi hund. Svo niðurlægingin er alger.
Svo sautjándajúníhátíðin breytist í algera hneisu, í öllu falli fyrir feimna stelpu af Syðri-Brekkunni sem getur sér til um að verða strítt út af þessu um alla ævi.
Því bróðir hennar gelti að áhorfendum. Á svo til réttu stöðunum. Tótó litli. Sitjandi á afturfótunum. Ýlfrandi. Spangólandi ef á þurfti að halda.
En Sigrún skilaði leikaranum heim í dagslok. Sársvekkt og sigin í öxlunum.
Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.
- Í NÆSTU VIKU: DANSTÍMAR