Fara í efni
Sigmundur Ernir

Keiluspil

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 62

Ella frænka kom stundum að sunnan með öðruvísi mat og annan þann varning en við norðanfólkið höfðum vanist í fásinninu. Hún var yngsta barnið í systkinahópi pabba af Ströndum norður, og eina stelpan, svo það var nokkuð látið með hana þegar hún kom í heimsókn, alla þessa leið að nyrstu byggðum Ísafoldar.

En ég man hvað best ein jólin sem hún dvaldi í húsum okkar á Syðri-Brekkunni, en hún var einsömul, ógift og barnlaus um það leyti ævinnar, og í tilviki okkar krakkanna var það eins og óvæntur glaðningur að fá hana inn á heimilið, svo ferskur andvari sem hún var að sunnan, eilíflega blíð og brosandi.

Og þessi jólin færði hún okkur öllum gjafir, og þær voru sko ekki ættaðar úr gamla kaupfélaginu í bænum, heldur sjálfri Liverpool á miðjum Laugaveginum, fallegustu og framsæknustu leikfangaverslun höfuðborgarinnar sem verslaði ekki með nokkuð annað en nýjasta og skrautlegasta glingur þessa heims.

Jafnvel tilhugsunin ein við að maður, norðlenskur guttinn, væri að fá dót frá svona forframaðri og nýmóðins bútikku við Sundin blá, hleypti stjarfa í andlit manns við að taka utan af vel inn pakkaðri gjöfinni, en hún var með fleiri og þykkari slaufum en krakki á manns norðurhjaraslóðum hafði áður séð.

Ég fékk keiluspil frá Ellu frænku þessi jól hennar fyrir norðan.

Annað eins ævintýraþing úr áli og bronsi hafði ég ekki séð á tæplega tíu ára ævi minni. Því þetta var mikil gormavél. Og með því einu að setja smágerða stálkúlu framan við upptrekktan víravöndulinn, var ekkert annað að gera en að taka í gikkinn og láta skeika að sköpuðu.

Ég felldi þær margar, keilurnar, og feykti enn öðrum, langt á undan þeirri samtíð minni sem átti eftir að kynnast löngu ókomnum keilusölum á allt annarri öld

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SELSHREIFAR

Dýrtíð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
17. febrúar 2025 | kl. 11:30

Skíðabelti

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
10. febrúar 2025 | kl. 11:30

Marengs

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
03. febrúar 2025 | kl. 11:30

Útvíðar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
27. janúar 2025 | kl. 11:30

Selshreifar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. janúar 2025 | kl. 11:30

Rýjateppi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 11:30