Fara í efni
Sigmundur Ernir

Holtsfólk

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 6

Á efri Brekkunni lágu tvær götur syðst. Það voru Álfabyggð og Suðurbyggð. En nútíminn var ekki meiri en svo að á milli nýju gatnanna stóðu gömul hús, sum hver feyskin og fúin, en hýstu sitt fólk sem var ekkert endilega á förum.

Holtsfólkið stóð hjarta mínu næst. En það eru fyrstu skrýtnu manneskjurnar sem ég man eftir. Á máli fullorðinna þótti það ekki binda bagga sína sömu hnútum og aðrir bæjarbúar.

En viðlíka orð voru auðvitað ofar mínum skilningi.

Og ætli ég hafi ekki verið sjö ára. Kominn í mína fyrstu launavinnu í lífinu. En ég hafði verið að snuðra í kringum húsakost Holtsfólksins, sjálfsagt í leit minni að leikjum dagsins, þegar frúin á heimilinu segir mér í óspurðum fréttum að hún eigi ekki heimangengt. Hvort ég geti ekki skottast fyrir hana niður í Kaupfélag verkamanna í Byggðaveginum og keypt fyrir hana kardimommudropa. En ég ætti að mæla það af munni fram, sagði hún með löngum fingri, að þeir væru fyrir mömmu mína í baksturinn.

Og allt saman það samhengi skildi ég ekki frekar en annað, svo snemma lífsins.

En ég fékk túkall fyrir viðvikið. Og það voru stærstu peningar sem ég hafði eignast um mína fáu daga.

Fyrir nú utan ánægju konunnar í gættinni í Holti þegar hún tók við litla glasinu úr höndum mínum.

En sér þætti vænt um ef ég gæti viðvikað hana öðru hverju. Droparnir væru henni bragðbætir í bitra tilveruna.

Og þótt ég stæði náttúrlega fyrir framan hana, án þess að skilja orðin, kvaðst ég vitaskuld vera til í fleiri túkalla. Það væri svo stutt að fara.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Á komandi misserum munu birtast vikulegir pistlar hans á akureyri.net um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

  • Í NÆSTU VIKU: HITAKOMPA

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Draugagangur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
11. nóvember 2024 | kl. 11:30

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30

Innskotsborð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. október 2024 | kl. 11:30

Berrasssa

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
21. október 2024 | kl. 11:30

Ylfingur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. október 2024 | kl. 11:30