Fara í efni
Sigmundur Ernir

Hansahillur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 15

Eitt af metnaðarfyllstu markmiðum mömmu og pabba í æsku minni var að eiga fyrir hansahillum. En þær kostuðu formúgu. Og kölluðu líklega á víxilgreiðslur.

Þau höfðu eytt þeim örfáu krónum, sem út af stóðu í búinu, í járnabindingar og steinsteypu þegar ég var að komast á löpp, og fyrir vikið var Álfabyggðin svo til berrössuð að sjá. Það voru hvorki hurðir fyrir dyrum, né teppi á gólfum, og hvað þá tjöld sem huldu glugga.

En þau tönnluðust á þessum hillum. Það er endurhljómurinn.

Allir væru að fá sér svoleiðis nýmóðins búsgögn. Og því þá ekki þau, sem ættu þetta nýja einbýlishús á Syðri Brekkunni, en ekki gæti það bara borið bera veggina til eilífðarnóns. Því það væri þeim til háðungar.

Það var snakkað um þetta í saumaklúbbunum. Og ekki síður hjá spilafélögunum, en svona mublur væru komnar á flest hver betri heimilin. Yfir alla veggi. En það væri mælikvarði á velfarnað að vera meði veglegt veggjaskraut af því taginu.

Svo þau fengu hillurnar á heilann.

En lauslega tifar það í minningunni þegar amma dregur seiminn og segir hönnunina koma frá Danmörku. Þetta sé svo að utan. Og ekkert bæjarnagl. Það sé komin fabrikka í höfuðborginni sem geti smíðað stykkin upp á konunglega vísu. En þá er hringt á langlínu. Og pantað að sunnan. Það komi með vörubíl.

Og svo rennur stundin upp á heimilinu. Það er borað fyrir festingum. Og það er gert af þolinmóðri nærgætni. En nokkur er nú tilbreytingin. Því það er svo að heimilisfólkið verður vitni að ljómanum þegar veggurinn í stofunni fær tilgang.

Mamma raðar fjölskyldumyndunum upp á herlegheitin, römmuðum inn í gullflúraða umgerð – og það má ekki á milli sjá hvort kynið er hárfegurra.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: MALARVÖLLUR

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóhúsin

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
02. desember 2024 | kl. 11:30

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30