Fara í efni
Sigmundur Ernir

Hádegisfréttir

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 46

Það var ekki einasta lagður fullur og óbilandi trúnaður á hádegisfréttirnar á Syðri-Brekkunni upp úr miðri síðustu öld, heldur lá við sjálft að þulirnir sem fluttu þær alla leiðina sunnan af Skúlagötu við Sundin blá, væru á við æðri máttarvöld, svo guðumlíkir sem þeir þóttu vera í afstúkuðum eldhúskróknum.

Og þar gilti eitt umfram annað, en fólk skyldi þegja. Fullorðnir jafnt sem fávís börn. Því ekki mætti missa af einu einasta orði. Sjálfur sannleikurinn að sunnan væri þar borinn fram af festu og einurð af þeim raddmestu mönnum Íslands sem Jón Múli Árnason og Pétur Pétursson þættu í eyrum viðstaddra.

En það þyrfti aldrei að efast um erindi þeirra.

Líklega var þessi siður jafn gamall útvarpi á Íslandi. Þau undur öll og stórmerki sem fylgdu ljósvakavæðingunni á þessum ystu kimum Evrópu upp úr Kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar rufu einangrunina í hverri og einni einustu sveit og þorpi, jafnt frammi í þrengstu dölum og út til ystu nesja. Það þurfti ekki lengur að reiða sig á landpóstinn sem braust yfir heiðar með tíðindi síðasta misseris, jafn gömul og þau nú gátu verið, heldur fékk alþýða manna að vita það allt í einu hvað klukkan sló, jafn óðum og hún klingdi.

Önnur eins fjölkynngi hafði ekki gerst í aldanna rás, eða allt frá því Ísland byggðist. Hvaðeina fréttist jafn óðum og það gerðist. Og virðuleg viðtækin urðu fyrir vikið að miðdepli heimilisins, eins og skríni á altari bænahúss.

Gilti einu þótt sjónvarpið kæmi áratugunum seinna. Útvarpið var ætíð máttugra og merkilegra. Enda hafði Sigmundur afi á orði að ekki þyrfti að sýna honum það sem búið væri að segja honum – og svo hnussaði í mínum manni, en hann var aldrei sérlega öruggur í návist litasjónvarpsins eftir að það kom á heimilið.

En útvarpið, maður lifandi, þvílík blessun. Svo fremi að fólkið héldi kjafti í kring.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: OZ

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Draugagangur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
11. nóvember 2024 | kl. 11:30

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30

Innskotsborð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. október 2024 | kl. 11:30

Berrasssa

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
21. október 2024 | kl. 11:30

Ylfingur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. október 2024 | kl. 11:30