Danstímar

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 48
Haustið merkti að Heiðar Ástvaldsson var kominn í bæinn og þá var arkað upp á efri hæðir Landsbankahússins til að læra að dansa.
Og straumurinn lá þangað, því börnin þyrftu að kunna þetta, enda ekki til þess önnur leið að ná sér í almennilegan maka en að heilla hann í sveiflunni á Hótel KEA, jafnvel bara á fimmtudagskvöldi, fyrir klukkan níu, ef lagið var gott.
En það sem maðurinn var lipur á löppunum. Örgrannur sveif hann um á iljunum eins og þær snertu ekki gólfið, en gat samt snúið sér í fjaðurmjúka hringi eins og sakir galdra á gólfinu, skæddur þessum líka dúnmjúku dansskónum.
Við krakkarnir sem sátum hvorir sínum megin í salnum, eftir kyni, gátum ekki slitið augun af þessum sunnanmanni, jafn flinkur og hann var í hreyfingunum. Og svo kunni hann svo undramörg orð á útlenskunni að við vorum bara við það að forframast út af því öllu saman; cha cha og samba, að ekki sé nú talað um jive sem tekur svo í taktinn að tærnar standa á nöglinni.
En Heiðar var góðmenni. Öðru fremur. Honum var einkar lagið að losa okkur strákana við feimnina og óframfærnina, því á tímanum fram að kynþroska er kannski ekkert afkáralegra í lífi barns en að halda utan um annað kyn og æða með því út um gólfið með aðra hönd á öxl og hina sveitta í lófanum.
Og þá væri nú kannski skárra að leika sér við strákana.
En þarna sátum við, að mig minnir tvisvar í viku, einhverja seinniparta sem eru raunar svo ógleymanlegir að maður man enn þá eftir sér í straujuðum buxum með hnepptu vesti yfir skjannahvítri skyrtunni – og auðvitað á vel burstuðum blankskóm, að bugta sig og bjóða fallegri stelpu upp í dans.
Þótt maður hefði nú ekki enn þá vitið til að vera verulega skotin í henni.
Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.
- Í NÆSTU VIKU: YLFINGUR


Skíðabelti

Marengs

Útvíðar

Selshreifar
