Fara í efni
Sigmundur Ernir

Brúarlandstaxinn

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 39

Guðrún amma og Sigfús afi höfðu aldrei efni á því að eignast bifreið. Og það stóð raunar tæpt að þau ættu fyrir litlu risíbúðinni í Gilsbakkavegi, svo kröpp voru nú kjörin upp úr miðri síðustu öld hjá alþýðu manna.  

Því það var aldrei að hafa nokkra verkamannavinnu til frambúðar. Bara dauflegt daglaunapex, kannski ráðningu fram yfir hádegi, og eitthvert tilfallandi tímakaup af lægsta taxta. Ef að verkstjórinn var manni hliðhollur. Sem var nú ekki alltaf.

En það þurfti þó að gera sér glaðan dag. Að minnsta kosti einu sinni á sumri. Og minna gat það nú eiginlega ekki verið ef maður ætlaði að flokka sig á meðal betur heppnaðri sálna í samfélaginu. Altso einn túr. Eitthvert burt úr bænum.

Það var meginstefið undir Jónsmessunótt.

En þá höfðu þau hjónin þann háttinn á að leigja sér taxa til að aka með sér yfir Vaðlaheiðina sem þaðan var stefnt ofan yfir ávala Fnjóskárbrúna og bremsan ekki stigin fyrr en í Brúarlandi, í tignarlegasta trjálundi landsins.

Því það þótti fínt að vera í Vaglaskógi á sumri háu. Og punta sig þar á meðal mektandi bæjarbúa sem voru vanir því að halda yfir heiðina um helgar. Svo þau voru heldur upp með sér í augnablik. Drottning um stund. Og kóngur einn dag.

Höfðu að vísu ekki ráð á því að versla viðurgjörninginn í Brúarlandi, en þar var tertuverðið tífalt á við það sem þekktist heima við, sagði amma, sem fór aldrei með rangt mál, svo þau supu á brúsa og borðuðu nesti sitt undir útipallinum.

En þetta var ávallt fallegur dagur, fríið þeirra hjóna, áður en þau héldu aftur heim á leið í leigubílnum sem þau höfðu pantað sér í tíma fyrr um vorið, viss í sinni sök að þetta sumarleyfi yrði sælan ein og eftirminnileg.  

 

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: TÓMATAR OG GÚRKUR

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóhúsin

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
02. desember 2024 | kl. 11:30

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30