Fara í efni
Samherji

VMA 40 ára – „Finnum fyrir mikilli velvild“

Mynd: Hilmar Friðjónsson

Verkmenntaskólinn á Akureyri fagnar 40 ára afmæli sínu á morgun. Bæjarbúum, fyrrum nemendum og öðrum velunnurum skólans er boðið í heimsókn til að gleðjast yfir áfanganum.

„Það verður afmælishátið hér milli kl. 15 og 17, opið hús og allir velkomnir. Það verður hægt að ganga um skólann og inn á brautunum verður ýmislegt að gerast sem gestir geta skoðað. Þá ætlum við að vera með sýningu á gömlum skólablöðum og tína saman myndir og myndefni úr sögu skólan. Síðan verða nokkur ávörp, tónlistaratriði og auðvitað afmæliskaka,“ segir Sigríður Huld Jónsdóttir, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri. Á föstudag verður svo móttaka fyrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn skólans í tilefni afmælisins.

Sigríður Huld skólameistari VMA. 

Margt gerst á 40 árum

Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur sannarlega mikið breyst á þeim 40 árum sem hann hefur verið starfræktur. Hann varð til úr mörgum menntaeiningum sem sameinaðar voru undir hans merki árið 1984 og síðan þá hefur skólinn vaxið og dafnað. Í dag er afar fjölbreytt nám í boði í skólanum, bæði bóklegt og verklegt. Þá er þar boðið upp á bæði dagskóla og kvöldnám, sem og nám fyrir þá sem ekki hafa lokið viðmiðum grunnskóla eða eru með sértækar þarfir. Um 1000 nemendur eru í skólanum í vetur ásamt um 300 nemendum í fjarnámi, en stór hluti fjarnema eru í iðnmeistaranámi.

„Það eru mörg fyrirtæki sem væru sjálfsagt hreinlega ekki til á Akureyri ef við hefðum ekki þennan skóla hérna.

Verkmenntaskólinn á Akureyri. Mynd: Þorgeir Baldursson

Fólk þakklátt fyrir VMA

„Markmiðið með svona afmælishátið er fyrst og fremst að efla tengsl og búa til ný við þá sem við eigum í samstarfi við í okkar nánasta umhverfi. Við finnum alltaf fyrir mikilli velvild í garð skólans, bæði frá fólki sem hefur átt hér börn eða verið nemendur hérna, sem og frá fyrirtækjum hér á svæðinu. Fólk er gríðarlega þakklátt fyrir þennan skóla,“ segir Sigríður og heldur áfram; „Það eru mörg fyrirtæki sem væru sjálfsagt hreinlega ekki til á Akureyri ef við hefðum ekki þennan skóla hérna. Eins er tilvist skólans ákveðin leið fyrir Háskólann á Akureyri að fá nemendur til sín, því það skiptir máli fyrir Háskólann að það séu öflugir framhaldsskólar hér á Akureyri. Þetta styður allt hvert við annað,“ segir Sigríður og býður alla áhugasama velkomna að líta við á afmælishátíðinni á morgun. Dagskrá afmælishátíðarinnar má sjá í heild sinni HÉR

    • Lengra viðtal við Sigríði Huld, skólameistara VMA, verður birt á Akureyri.net á næstu dögum þar sem Sigríður lítur um öxl en hún hefur verið í stjórnendastöðu við skólann í 19 ár.  

Baksíða Akureyrablaðsins Dags mánudaginn 3. september 1984. Akureyrarkirkja var þétt setin þegar VMA var settur fyrsta sinni laugardaginn 1. september. Bernharð Haraldsson í pontu – hann var fyrsti skólameistari  VMA og gegndi því embætti í hálfan annan áratug.