Fara í efni
Samherji

Sviðslistir MA tilnefndar til Menntaverðlaunanna

Fyrsti bekkurinn á kjörnámsbraut í sviðslistum að lokinni sýningu á lokaverkefni hópsins, ásamt Völu Fannell fyrsta verkefnisstjóra brautarinnar og Ingunni Elísabetu Hreinsdóttur núverandi verkefnastjóra. Mynd af vef MA.

Kjörnámsbraut í sviðslistum við Menntaskólann á Akureyri er tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna í ár. Tilnefningar voru kynntar í dag, á alþjóðlegum degi kennara eins og hefð er fyrir, og forseti Íslands veitir verðlaunin á Bessastöðum 5. nóvember.

Íslensku menntaverðlaunin eru veitt í fimm flokkum og sviðslistabraut MA er tilnefnd í flokki þróunarverkefna.

„Þetta er sannarlega mikil viðurkenning fyrir þá frumkvöðla sem komu að hönnun brautarinnar og kennslu og ekki síður nemendum. Fyrsti árgangurinn brautskráðist 2023. Vala Fannell, leikari og leikstjóri, vann að uppbyggingu brautarinnar og stýrði henni í byrjun og skrifaði hún meistaraprófsritgerð sína frá Listaháskóla Íslands um þróun brautarinnar,“ segir á vef MA í dag.

Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum.

  • Smellið hér til að sjá allar tilnefningarnar

Á vef Samtaka áhugafólks um skólaþróun er fjallað um sviðslistabrautina í MA. Þar segir:

Sviðslistabrautin er kjörnámsbraut sem miðar að því að veita nemendum innsýn í töfraheima sviðslistanna og hinar ýmsu hliðar og störf innan sviðslistaheimsins.

Markmið sviðslistabrautarinnar, sem byggð var upp í samstarfi við Menningarfélag Akureyrar, er að auka námsframboð í listum á svæðinu, gefa nemendum MA tækifæri á fjölbreyttu námi í sviðslistum og skapandi greinum, styrkja menningarlegt uppeldi í skólabænum Akureyri og gera listir og menningu enn sýnilegri innan skólans. 

Með brautinni er meðal annars verið að bregðast við skorti á mannauði og sérþekkingu í sviðslistum á landsbyggðinni, en lítið hefur verið um tækifæri til náms í öðrum greinum sviðslista en leiklist.

Auk 150 eininga kjarna taka nemendur á sviðslistabrautinni 10 áfanga sem snúa að hinum ýmsu hliðum sviðslista, allt frá starfi leikarans og leikstjórans yfir í hönnun, framleiðslu og samsköpun. Meðal áfanga á brautinni má nefna leiklist, spuna og samfélagsleikhús, rödd og texta, dans, leiklistarsögu, söng, skapandi skrif, hönnun leikmynda, búninga og gervis, leikstjórn og lokaverkefni. Auk sviðslistaáherslunnar er leitast við að veita nemendum breiða almenna menntun sem veitir góðan grunn fyrir líf og starf og áframhaldandi nám.

Kennsla hófst á brautinni haustið 2020 og fyrsti hópurinn brautskráðist 17. júní 2023. Í umsögn sem fylgdi tillögu um tilnefningu sagði meðal annars:

Sviðslistabrautin hefur gríðarlega þýðingu fyrir ungt fólk á landsbyggðinni sem hefur áhuga á menningu og listum. Það er mikilvægt fyrir ungt fólk að geta sótt sér nám á sínu áhugasviði í eða nálægt heimabyggð.

Námið er einstaklingsmiðað þar sem nemendur eru hvattir til sjálfstæðrar og gagnrýnnar hugsunar. En þar sem leiklist er list mennskunnar sem einungis verður til í samstarfi við aðrar manneskjur, er samvinna lím brautarinnar og þetta er hæfni sem skilar sér inn í samfélagið í heild.

Brautin auðgar einnig menningarstarf á landsbyggðinni með aukinni þekkingu, grósku og áhuga og eykur nýtingu á þeirri sérþekkingu og mannauði sem þegar er til staðar. Að lokum eykur brautin námsframboð í greinum þar sem það skortir, kveikir áhuga á störfum sem oft eru falin og það nýtist menningarlífi landsins til frambúðar. Hvort sem nemendur enda á að ganga í störf tengd sviðslistum eður ei, þá verða þarna alltaf til einstaklingar með skilning á og virðingu fyrir listforminu og menningu.

Vala Fannell, leikari og leikstjóri, vann að uppbyggingu brautarinnar og stýrði henni í byrjun og skrifaði hún meistaraprófsritgerð sína frá Listaháskóla Íslands um þróun brautarinnar.