Fara í efni
Samherji

Bergmann og Hans Rúnar verðlaunaðir

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, Hans Rúnar Snorrason, í miðjunni, og Bergmann Guðmundsson, á Bessastöðum í gær. Myndir: Mummi Lú

Bergmann Guðmundsson, verkefnisstjóri við Brekkuskóla og Giljaskóla á Akureyri, og Hans Rúnar Snorrason, kennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit, hlutu í gær hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna 2024 fyrir margháttað framlag, leiðsögn og stuðning við kennara og nemendur um allt land við að nýta upplýsingatækni með árangursríkum hætti.

Íslensku menntaverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Þau eru í veitt í fimm flokkum; fyrir framúrskarandi skóla- eða menntaumbótastarf, kennslu, þróunarverkefni, iðn- og verkmenntun, auk sérstakra hvatningarverðlauna.

„Bergmann Guðmundsson og Hans Rúnar Snorrason hafa á undanförnum árum haft afar jákvæð áhrif á skólastarf með stuðningi við kennara og nemendur um land allt og með því að vera fyrirmyndir um notkun á upplýsingatækni í skólastarfi. Þeir hafa verið boðnir og búnir til að aðstoða kennara sem leita til þeirra með fyrirspurnir og vandamál og verið einstaklega ötulir við að deila við hugmyndum um rafrænar lausnir,“ segir á vef Samtaka áhugafólks um skólaþróun.

Allir handhafar Íslensku menntaverðlaunanna ásamt forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, á Bessastöðum í gær.

Bergmann og Hans Rúnar hafa skipulagt og tekið þátt í námskeiðum, fræðslufundum, vinnustofum og menntabúðum þar sem þeir hafa leiðbeint kennurum um fjölbreytta og skapandi notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Sem dæmi má nefna að undanfarin misseri hafa þeir unnið hörðum höndum að því að smíða gervigreindarlausn sem er sérhönnuð fyrir kennara og ætluð til að létta þeim störf sín, sjá á https://viskubrunnur.net/. Þar er að finna fjölbreytt verkfæri til fara yfir verkefni, semja verkefni og kennsluáætlanir, sem og lausnir í tengslum við námsmat. Einnig hafa þeir verið ötulir talsmenn þess að nýta tæknina til að aðstoða nemendur með sérþarfir og veita þeim bjargir sem nýtast þeim í náminu og haldið fjölda mörg námskeið um lausnir því tengdu.

Síðan 2018 hafa þeir Bergmann og Hans Rúnar byggt upp vefsíðuna Snjallkennslan (https://www.snjallkennsla.is/) þar sem þeir hafa miðlað fjölbreyttum hugmyndum um notkun upplýsingatækni í kennslu, sett upp leiðbeiningar, kynnt öpp og forrit sem nýtast í kennslu og verkefni sem hægt er að aðlaga mismunandi aðstæðum.

Á Snjallkennsluvefnum er til dæmis fjöldi kennslumyndskeiða sem ætluð eru til að styðja við kennara sem eru að taka sín fyrstu skref í því að kenna með tækni ásamt því að vera til upprifjunar fyrir lengra komna. Þá má nefna vefsíðuna Hvað á ég að gera? (sjá Hvað á ég að gera? — Snjallkennsluvefurinn (snjallkennsla.is)) sem er safnsíða með fjölbreyttum öppum, verkefnum og leikjum sem henta í skólastarfi. Þá settu þeir upp opinn tungumálavef fyrir arabíska nemendur sem miðar að því að efla orðaforða þeirra og auðvelda þeim að læra íslensku. Loks má nefna að þeir hafa unnið að gerð ýmissa kennsluappa sem eiga að efla orðaforða nemenda í íslensku og ensku.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Halla Tómasdóttir forseti Íslands, Hans Rúnar Snorrason, Bergmann Guðmundsson og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Í umsögn um framlag þeirra segir meðal annars:

Stuðningur þeirra hefur verið ómetanlegur. Hæfni þeirra og vilji til að miðla því sem þeir læra, hjálpa öðrum og skapa er óumdeildur. Þeir eru einstakar fyrirmyndir í notkun á verkfærum sem gera líf nemenda, foreldra og skólafólks auðveldara og skilvirkara og hafa haft áhrif á skólastarf, nám og kennslu um land allt.

Fleiri lausnir sem Bergmann og Hans Rúnar hafa smíðað:

  • https://arnrun.is/ – lausn til að auðvelda skipulagningu kennslu fyrir nemendur sem þurfa á einstaklingsstundaskrá og skipulagi að halda.
  • Ragnar – Örugg gervigreindarlausn fyrir nemendur til að vinna með í skólunum án þess að þurfa að hafa áhyggjur af persónuverndarmálum. https://ai.kunnatta.is

_ _ _

ÍSLENSKU MENNTAVERÐLAUNIN

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, stofnaði til Íslensku menntaverðlaunanna og veitti þau á árunum 2005–2011, þegar þau lögðust af í kjölfar efnahagshrunsins. Verðlaunin voru tekin upp að nýju árið 2020 og eru nú veitt árlega á Bessastöðum.

Verðlaunin eru veitt veitt „fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum,“ segir á vef forseta Íslands.

Að verðlaununum standa:

  • Embætti forseta Íslands
  • Mennta- og barnamálaráðuneyti,
  • Innviðaráðuneytið,
  • Félag um menntarannsóknir
  • Grunnur – félag stjórnenda á skrifstofum fræðslumála í sveitarfélögum
  • Kennaradeild Háskólans á Akureyri
  • Kennarasamband Íslands
  • Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild)
  • Miðstöð menntunar og skólaþjónustu
  • Mennta­vísindasvið Háskóla Íslands
  • Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri
  • Samband íslenskra sveitarfélaga
  • Samtök áhugafólks um skólaþróun
  • Samtök iðnaðarins
  • Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar