Fara í efni
Samherji

Styrkja tíu samtök á 110 ára afmælinu

Kvenfélagið Hjálpin gefur samtals 1,1 milljón til tíu samtaka sem veita fría þjónustu á Norðurlandi í tilefni af 110 ára afmæli félagsins.

Kvenfélagið Hjálpin í Eyjafjarðarsveit gefur tíu samtökum samtals 1,1 milljón króna á upphafsdegi 16 daga átaks gegn ofbeldi þann 25. nóvember. Ákveðið var á félagsfundi í haust að halda upp á 110 ára afmæli félagsins með því að styrkja tíu samtök um 110.000 krónur hvert og beina þessum framlögum til samtaka sem veita fría þjónustu á Norðurlandi.

Hver grípur þig?

Þegar farið var af stað rákust félagskonur á viðburðinn „Hver grípur þig? Frí þjónusta á Norðurlandi“, opið málþing sem haldið verður í Háskólanum á Akureyri 25. nóvember, á upphafsdegi 16 daga átaks gegn ofbeldi. Að málþinginu standa þær Erla Lind Friðriksdóttir og Birna Guðrún Árnadóttir og er það hluti af verkefni þeirra í námskeiðinu Sálræn áföll og ofbeldi við Háskólann á Akureyri. Þar munu samtökin Bjarmahlíð, Bergið Headspace, Aflið, Kvennaathvarfið, Frú Ragnheiður, Píeta-samtökin og Grófin geðrækt kynna starfsemi sína. 

Auk áðurnefndra samtaka mun kvenfélagið einnig styrkja Hjálparsveitina Dalbjörg í Eyjafjarðarsveit, Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis og Velferðarsjóð Eyjafjarðarsvæðis. 

Með þessum framlögum, tíu sinnum 110.00 krónum, vilja félagskonur í Hjálpinni vekja athygli á kvenfélögum og starfi þeirra um allt land „Konur baka svo sannarlega betra samfélag, bæði fyrir sig sjálfar og aðra. Á sama tíma viljum við styrkja þau samtök sem eru að gera góða hluti í nærsamfélaginu okkar hérna í Eyjafirði og hvetja aðra til styrkja þau líka,“ segir meðal annars í tilkynningu félagsins.

Bók um konurnar í félaginu

Kvenfélagið Hjálpin varð 110 ára í haust eins og fram kom hér að ofan. Í félaginu starfa 24 konur auk nokkurra heiðursfélaga. Konurnar eru á aldrinum 24ra til 76 ára, en meðalaldurinn er 48 ár. Félagskonurnar eru vinkonur, nágrannar, bekkjarsystur, systur og í félaginu starfa til dæmis þrjú pör af mágkonum, þrjú pör af mæðgum og fimm pör af tengdamæðrum. 

Þegar félagið varð 100 ára árið 2014 gáfu þær út bókina Drífandi daladísir þar sem eru myndir og upplýsingar um allar félagskonurnar ásamt sögu félagsins í máli og myndum. Samtals eru félagskonurnar í gegnum tíðina 231.