Fara í efni
Samherji

Rannsakendur biðla til fólks sem fætt er 1988

Um þessar mundir er að fara af stað rannsókn, Heilsuferðalagið: Langtímarannsókn á Íslendingum fæddum 1988. Um er að ræða framhald af rannsóknum sem framkvæmdar voru árin 2003-2004 (Lífsstíll 9 og 15 ára Íslendinga) og 2011-2012 (Atgervi ungra Íslendinga) af rannsóknarteymi frá Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Úrtak rannsóknarinnar var af höfuðborgarsvæðinu (65%) og frá Akureyri, Egilsstöðum og Húsavík (35%) og voru þátttakendur í heild um 350.

Í þessari rannsókn verður leitað til sömu einstaklinga og tóku þátt í fyrri tveimur rannsóknum, fólk sem er fætt árið 1988 og verður því 36 ára á þessu ári.

  • Markmiðið er að skoða breytingar á andlegri, líkamlegri og félagslegri heilsu við 36 ára aldur.
  • Með því að rannsaka tímabilið frá unglings- til fullorðinsára gefst einstakt tækifæri til að skilja hvernig almennt heilsufar, andleg líðan, félagslegur stuðningur, þrek, hreyfing og svefn tengjast og móta heilsu á fullorðinsárum.
  • Þetta mun vera ein af fyrstu rannsóknum á Íslandi þar sem langtímaþróun á heilsufarstengdum þáttum frá unglingsaldri til fullorðinsára er skoðuð ítarlega. 

Biðla til fólks

Þriðja gagnasöfnunarferli þessar viðamiklu rannsóknar hófst í dag á Akureyri, síðan verður mælt á Húsavík og Egilsstöðum og að lokum á höfuðborgarsvæðinu. Stjórnendur rannsóknarinnar vonast til þess að sem flestir sjái sér fært að taka þátt í þessari framhaldsrannsókn, þetta er lokaáfangi rannsóknarinnar og ekki verður haft samband við þátttakendur framar.

„Við biðlum því til þeirra sem fæddir eru árið 1988 og tóku þátt í fyrri gagnasöfnun, það er árið 2003/2004 eða árið 2011/2013 eða í bæði umrædd skipti að vera áfram með okkur í þessari vegferð. Allir sem taka þátt fá gjöf þegar þau mæta í mælingar, upplýsingar úr heilsufarsmælingum og eiga möguleika á útdráttarverðlaunum. Þeir sem ljúka öllum verkþáttum fá gjafakort að launum,“ segir í tilkynningu frá stjórnendum rannsóknarinnar.

Rannsakendur og samstarfsaðilar

Mjög faglega sterkur alþjóðlegur rannsóknarhópur stendur á bakvið verkefnið en hann samanstendur af aðilum frá Háskóla Íslands (HÍ), Háskólanum á Akureyri (HA), tveimur háskólum í Bergen í Noregi, vísindamönnum hjá Heilbrigðisstofnun Bandaríkjanna og Háskólanum í Porto í Portúgal. Frá HÍ koma að verkefninu þau dr. Erlingur Jóhannsson prófessor og dr. Sunna Gestsdóttir dósent og dr. Ársæll Már Arnarsson prófessor og frá HA dr. Nanna Ýr Arnardóttir lektor. Tveir doktorsnemar vinna að verkefninu þær Kristrún María Björnsdóttir íþróttafræðingur og doktorsnemi við HA og Sæunn Rut Sævarsdóttir lýðheilsufræðingur og doktorsnemi við HÍ.

Rannsóknin verður framkvæmd í samstarfi við fjölmarga aðila í heilbrigðis- og menntakerfinu. Þessar stofnanir eru m.a. Hjartavernd í Kópavogi, Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Rannsóknarsjóður Íslands, rannsóknarsjóðir HÍ og HA styrkir verkefnið auk fyrirtækja, þar á meðal Bílaleiga Akureyrar-Höldur, að því er segir í tilkynningu.