Fara í efni
Samherji

Löggæsla og samfélagið – samfélagslöggæsla

Ráðstefnan Löggæsla og samfélag fer fram í sjöunda sinn við Háskólann á Akureyri dagana 2. og 3. október. Þema ráðstefnunnar er samfélagslöggæsla en á ráðstefnudagskránni eru 63 erindi af margvíslegum toga.

Guðmundur Oddsson, prófessor í félagsfræði við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og einn skipuleggjanda ráðstefnunnar, segir ráðstefnuna hafa skapað sér sess sem vettvangur fyrir fagfólk og fræðimenn til að reifa málefni sem tengjast löggæslu í víðri merkingu. „Þema ráðstefnunnar í ár kallast á við brennandi málefni sem hafa verið ofarlega á baugi í samfélaginu undanfarin misseri og má þar nefna ofbeldi og hnífaburð ungmenna, aukna vitund um kynferðisbrot sem og þörfina fyrir að efla lögregluna, þar með talið samfélagslöggæslu,“ segir Guðmundur.

Þema ráðstefnunnar í ár er samfélagslöggæsla. „Við samfélagslöggæslu er höfuðáhersla lögð á náið samstarf lögreglu og nærsamfélagsins við löggæslu, afbrotavarnir og úrlausn vandamála til að stuðla að betra og öruggara samfélagi fyrir alla. Samfélagslöggæsla hefur víða gefið góða raun og vel þess virði að fræðast frekar um þessa löggæslunálgun og hvaða lærdóm megi draga af henni,“ segir í kynningartexta um ráðstefnuna.

Umfjöllunarefni ráðstefnunnar í ár eru margvísleg og má þar nefna viðhorf til rafvarnarvopna, hnífaburð ungmenna, kynferðislega áreitni innan lögreglunnar, traust til lögreglunnar, lögreglumenntun og uppbyggilega réttvísi. Ráðstefnan fer fram á íslensku og ensku.

Lykilfyrirlesarar eru tveir:

  • Megan O’Neill frá Dundee háskóla og Scottish Institute for Policing Research
  • John Franco frá sænsku lögreglunni

Hér má nálgast dagskrá ráðstefnunnar: https://www.unak.is/is/samfelagid/vidburdir/loggaesla-og-samfelagid-2024

Ráðstefnugjald er 9.000 kr. og eru ráðstefnugögn og kaffiveitingar innifaldar.

Skráning er í fullum gangi en einnig er hægt að skrá sig á staðnum.