Fara í efni
Samherji

Kosningaframkvæmdin hefur gengið að óskum

Framkvæmd kosninga í Norðausturkjördæmi virðist hafa gengið með eðlilegum hætti og raunar allt gengið að óskum það sem af er morgni og veður eða ófærð ekki hamlað því að kjósendur komist á kjörstað samkvæmt upplýsingum sem Akureyri.net fékk hjá Evu Dís Pálmadóttur í yfirkjörstjórn Norðausturkjördæmis. Klukkan 11 höfðu 7,9% neytt atkvæðisréttar síns á kjörstöðum.

Yfirkjörstjórnin hefur haft samband við kjörstjórnir í öllu kjördæminu og alls staðar fengið þær upplýsingar að tekist hafi að opna kjörstaði og að kjörfundir gangi að óskum enn sem komið er. 

Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda utankjörfundaratkvæða enda berast þau bæði til yfirkjörstjórnar og inn í einstakar kjördeildir. Hins vegar má gera ráð fyrir að þau verði óvenju mörg ef marka má fréttir undanfarna daga af fólki sem ákvað að kjósa í gær eða fyrradag til að forðast að lenda í vandræðum vegna veðurs eða ófærðar á kjördag. Alls eru 31.039 manns á kjörskrá í kjördæminu.

Engar ákvarðanir um breytingar á kjörfundum 

Engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi framlengingu kjörfundar og eins og staðan er um hádegisbil er unnið út frá því að kjörfundir gangi eðlilega fyrir sig í dag.

Það á svo eftir að koma í ljós hvernig mun ganga að flytja kjörgögn úr öllu kjördæminu til Akureyrar, en talning fyrir allt kjördæmið fer fram í Brekkuskóla á Akureyri. Heimilt er að skipa tvær undirkjörstjórnir annars staðar í kjördæminu með heimild til talningar, en engin ákvörðun hefur verið tekin um slíkt. Allt eins líklegt er að ef það verður erfiðleikum bundið að flytja kjörgögn í kvöld og nótt að talningu yrði einfaldlega frestað því reikna má með betra veðri og að fært verði um kjördæmið á morgun.

  • Það er hins vegar ekki að kostnaðarlausu að halda kosningar að vetri til og þurfa að leggja aukna áherslu á að halda leiðum opnum. Fram kom í morgunfréttum Ríkisútvarpsins að Vegagerðin gerði ráð fyrir tugmilljóna viðbótarkostnaði við að halda vegum opnum vegna kosninganna (ruv.is). 
  • Varðandi kjörfundi í fámennari kjördeildum geta margir minni staðir nýtt sér þá reglu að hafa kjörstað opinn í fimm klukkutíma og ef enginn komi í hálftíma megi loka kjörstað (mbl.is).