Fara í efni
Samherji

Aðför að iðnnámi og iðnfyrirtækjum

Páll Kristjánsson framkvæmdastjóri Slippsins á Akureyri segir boðaða sameiningu Verkmenntaskólans á Akureyri (VMA) og Menntaskólans á Akureyri (MA) vera aðför að iðnnámi á landsbyggðinni, iðnfyrirtækjum á Norðurlandi og aðför að framhaldsskólanámi í Eyjafirði.

Í harðorðri grein sem birtist á Akureyri.net í dag kveðst Páll leyfa sér að fullyrða að boðuð aðgerð verði ekki til að styrkja iðnnám. Hann greinir frá samskiptum við bæði skólameistara VMA og formann fjárlaganefndar Alþingis.

„Forsvarsfólk Slippsins á Akureyri hefur ítrekað í samtölum og skriflegum samskiptum bent kjörnum fulltrúum á að það hljóti að vera skakkt gefið í [fjárveitinga]módelinu eftir því hvar verknámsskólar eru í sveit settir,“ segir Páll í greininni. Hann segir að þegar bent sé á skekkjuna vinni embættismenn nýtt módel og komist „upp með að afvegaleiða kjörna fulltrúa eins og að drekka vatn.“

Hann gagnrýnir að ýmis starfsemi úti á landi sé vanfjármögnuð og segir Norðlendinga og annað landsbyggðarfólk verða að vakna.

Smellið hér til að lesa grein Páls Kristjánssonar