Fara í efni
Safnkosturinn

Akureyrarvaka: Hvað er um að vera í dag?

Mynd af vef Akureyrarbæjar

Akureyrarvaka, afmælishátíð Akureyrar, hófst í gær og fjölmargt er á dagskrá í dag. Hátíðinni lýkur síðan á morgun.

Klukkan 9.00 fyrir hádegi í dag hefst 3 á 3 götukörfuboltamót í Garðinum hans Gústa við Glerárskóla og kl. 10.30 hefst Pálínuboð í Fálkafelli þar sem allir eru velkomnir.

Klukkan 11.00 gera Víkingar innrás á Akureyrarvöku! Víkingafélagið Veðurfjölnir á Akureyri hefur lagt undir sig MA-túnið, vestan við Lystigarðinn, og slær þar upp tjaldbúðum.

Víkingafélagið Rimmugýgur úr Hafnarfirði svaraði kalli eftir liðsauka og í tjaldbúðunum verður hægt að setjast við varðeld og skeggræða við víkinga, skoða og versla handverksvörur, stytta stundir með víkinga leikjum eða söng, prófa vopn og verjur víkingaaldar og sjá þeim beitt í bardaga, að því er segir í tilkynningu. Vopnaskak verður á svæðinu reglulega yfir daginn.

Ýmsir viðburðir verða hér og þar um bæinn. Líf og fjör verður til dæmis í menningarhúsinu Hofi, til dæmis má nefna dansviðburði sumarlistamanns Akureyrar, leikhúslög barnanna í boði Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Sönghópinn Ómar og hina einu sönnu Unu Torfa auk þess sem Ljóðajazz fer fram á sunnudagskvöldinu í Hofi en þar koma saman íslenski rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson og danska tónskáldið Dorthe Höjland.

Hápunktur Akureyrarvöku eru vafalaust stórtónleikarnir á Ráðhústorgi í kvöld þar sem norðlenska hljómsveitin Skandall, Skítamórall, Una Torfa, Emmsjé Gauti og sjálfur Bubbi Morthens halda uppi fjörinu. Kynnir kvöldsins er leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir.

Dagskrá Akureyrarvöku