Fara í efni
Safnkosturinn

Kvikmyndir Vigfúsar og fjölskylda Nonna

Tveir áhugaverðir viðburðir eru í boði á Minjasafninu í dag á Akureyrarvöku. Um miðjan dag verður veitt innsýn í kvikmyndagerð Akureyringsins Vigfúsar Sigurgeirssonar og m.a. sýndar fágætar upptökur frá Akureyri, en fyrir hádegi verður gengið um slóðir fjölskyldunnar í Nonnahúsi.
 
  • 11.00 - 12.15 – Gönguferð um slóðir Sveins og Nonna

Nonnahús er kennt við rithöfundinn Jón Sveinsson, Nonna. Hann var þó hvorki eigandi hússins né bjó þar lengi.

Af hverju hét húsið ekki Sveinshús meðan fjölskylda Nonna bjó þar? Hvernig stóð á því að Nonni var sendur til náms í Frakklandi tæplega 12 ára?

Saga foreldra og systkina Nonna er ekki síður áhugaverð. Þessi fjölskyldusaga verður til umfjöllunar í gönguferð á slóð Sveins og Nonna og þar verða dagbækur Sveins og sögurnar úr Nonnabókum með í för til að varpa ljósi á líf þeirra feðga og fjölskyldunnar í Nonnahúsi. „Um leið kynnumst við Akureyri eins og hún var á 19. öld og nokkrum litríkum persónum úr fortíðinni,“ segir í tilkynningu frá Minjasafninu.

Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri, leiðir gönguna ásamt Unu Haraldsdóttur, sagnfræðinema, sem rannsakað hefur dagbækur Sveins Þórarinssonar undanfarin sumur. Lesendur ættu að kannast vel við verk Unu og dagbækurnar því hún hefur  reglulega birt kafla úr þeim á Akureyri.net,  þetta er síðasta greinin: Dagbækur Sveins: Pétur Havsteen – I

Gangan hefst kl. 11 við Nonnahús og endar á sama stað rúmlega klukkustund síðar.

  • 14.00 - 15.00 – Kvikmyndir Vigfúsar Sigurgeirssonar
Boðið verður upp á sýn inn í horfinn heim sem ljósmyndarinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Vigfús Sigurgeirsson festi á filmu en margt af því hefur aldrei sést áður. 
 

„Vigfús ólst upp á Akureyri og þar hófst ferill hans sem farsæll ljósmyndari. Vigfús var einnig frumkvöðull í íslenskri kvikmyndagerð og einna fyrstur til að gera kvikmyndir um Ísland sem sýndu þjóð í leit að sjálfstæði og fangaði anda hins nýja lýðveldis á filmu,“ segir í tilkynningu frá Minjasafninu. „Það var ekki síst í starfi sínu sem ljósmyndari embætti forseta Íslands að hann stjórnaði miklu um sköpun ímyndar embættisins í gegnum ljósmyndir og kvikmyndir.“

Fágætt efni frá Akureyri

Annað mikilvægt innlegg Vigfúsar fyrir menningararf þjóðarinnar var að festa á á filmu hverfandi atvinnuhætti. Myndir hans spanna breitt tímabil og sýna samfélagið vaxa og dafna í gegnum mikilvæga atburði og fallegar svipmyndir.

„Á þessari sýningu, sem haldin er í samstarfi við Kvikmyndasafn Íslands, verða sýnd valin brot úr kvikmyndum Vigfúsar sem spanna allan hans feril, allt frá tilraunum hans í Þýskalandi til þjóðháttamynda á 7. áratugnum. Mikið af því myndefni sem verður sýnt hefur ekki sést um áratugaskeið og sumt aldrei. Einnig verður sýnt fágætt efni frá Akureyri.“

Gunnar Tómas Kristófersson sérfræðingur frá Kvikmyndasafni Íslands leiðir sýningargesti um heim kvikmyndagerðar Vigfúsar. Gunnar Tómas er kvikmyndafræðingur sem starfar á Kvikmyndasafni Íslands og stundar doktorsnám við Háskóla Íslands. Rannsóknir Gunnars snúast um frumkvöðla íslenskrar kvikmyndagerðar og eru kvikmyndir Vigfúsar liður í þeim rannsóknum.