Fara í efni
Risakýrin Edda

Sveinn Margeir og Daníel báðir í Víking

Sveinn Margeir Hauksson og Daníel Hafsteinsson - mynd sem birt var á samfélagsmiðlum Víkings í dag.

Knattspyrnumennirnir Daníel Hafsteinsson og Sveinn Margeir Hauksson, báðir lykilmenn í liði KA undanfarin misseri, hafa samið við Víking í Reykjavík. Víkingar tilkynntu þetta í gær.

Daníel, sem er 25 ára, og Sveinn Margeir, 23 ára, riftu báðir samningi við KA í haust en þá kom fram að möguleiki væri á að þeir semdu báðir við félagið á nýjan leik. Sveinn Margeir stundar nám í Kaliforníuháskóla í Los Angeles, UCLA, og hefur ekki möguleika á að vera nema sex vikur á Íslandi því hann þarf að vera mættur snemma út aftur. Daníel verður hins vegar með Víkingum af fullum krafti alla leiktíðina.

„Báðir eru þeir gríðarlega spennandi leikmenn. Daníel getur spilað meira eða minna allar stöður miðsvæðis á vellinum. Sveinn Margeir er gríðarlega kraftmikill leikmaður sem getur spilað allar framliggjandi stöður. Það skiptir okkur miklu máli að fá ákveðna tegund af leikmönnum í Víkina og báðir passa þeir fullkomlega inn í þá hugmyndafræði sem við vinnum eftir hér í Hamingjunni,“ er haft eftir Kára Árnasyni, yfirmanni knattspyrnumála hjá Víkingi, á heimasíðu félagsins í gær.