Fara í efni
Risakýrin Edda

Balde og Lalic í Þór – Aron Birkir framlengir

Ibrahima Balde í leik með Vestra gegn KA, Aron Birkir Stefánsson markvörður Þórs til fjölda ár og Franko Lalic, sem kemur til Þórs frá Dalvík/Reyni. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnudeild Þórs tilkynnti í gær að samið hefði verið við fjóra leikmenn; miðjumanninn Ibrahima Balde og þrjá markverði, Aron Birki Stefánsson, Franko Lalic og Víði Jökul Valdimarsson. Þetta kemur fram á heimasíðu Þórs. 

  • Aron Birkir Stefánsson undirritaði nýjan tveggja ára samning og er því á leið í sitt tíunda tímabil í meistaraflokki Þórs.

Aron Birkir, sem er 25 ára gamall, fór upp í gegnum yngri flokka starf Þórs og hefur leikið 193 leiki fyrir meistaraflokk Þórs auk þess að eiga 11 landsleiki að baki fyrir yngri landslið Íslands.

  • Ibrahime Balde samdi við Þór til eins árs.

Þessi 28 ára miðjumaður hefur leikið hér á landi undanför tvö ár, með Vestra á Ísafirði, í Lengjudeildinni 2023 og í Bestu deildinni síðastliðið sumar. Balde. sem fæddur er í Senegal, lék um árabil á Spáni áður en hann kom til Íslands

  • Franko Lalic samdi við Þór til tveggja ára. Lalic er 33 ára markvörður sem kemur frá Dalvík/Reyni.

Lalic kom til Íslands 2029, lék það ár með Víkingi í Ólafsvík, síðan var hann í tvö ár með Þrótti í Reykjavík og síðustu tvö keppnistímabil var hann í herbúðum Dalvíkur/Reynis. Lalic er Króati sem hefur einnig leikið í Bosníu og Litháen auk heimalandsins.

Auk þess að semja við Þór sem leikmaður tók Lalic að sér að hafa yfirumsjón með markmannsþjálfun félagsins.

  • Víðir Jökull Valdimarsson er genginn til liðs við Þór frá Val og samdi til tveggja ára.

Víðir er ungur og efnilegur markvörður, fæddur árið 2007 og er því enn á miðári í 2. aldursflokki. Hann hefur engu að síður leikið 35 leiki í meistaraflokki, með KH sem er venslalið Vals. Víðir á að baki fjóra landsleiki fyrir yngri landslið Íslands.

Nokkrir farnir

Þórsarar hafa séð á bak nokkrum leikmönnum síðan Íslandsmótinu lauk í haust.

  • Miðjumaðurinn Birkir Heimisson er farinn aftur í Val að lokinni ársdvöl hjá uppeldisfélaginu.
  • Varnarmaðurinn Aron Kristófer Lárusson, annar uppalinn Þórsari, sem kom heim um mitt síðasta sumar, er búsettur á höfuðborgarsvæðinu og verður þar næsta sumar.
  • Danski miðjumaðurinn Marc Sörensen hélt heim á leið.
  • Framherjinn Alexander Már Þorláksson er fluttur á Akranes og óvíst hvort og þá hvar hann leikur næsta sumar.
  • Varnarmaðurinn Birgir Ómar Hlynsson hefur verið lánaður í eitt ár til ÍBV.
  • Aron Einar Gunnarsson, sem kom til uppeldisfélagsins um mitt síðasta sumar, leikur í Katar í vetur en verður með Þór á ný á sumri komanda.

Mynd af Víði Jökli sem birtist á heimasíðu Þórs í gær.