Fara í efni
Rauði krossinn

„Göngum í skólann“ hófst í Brekkuskóla

Mynd: Skapti Hallgrímsson

Verkefnið Göngum í skólann var formlega sett í Brekkuskóla á Akureyri í morgun. Meginmarkmið þess er að hvetja nemendur og foreldra á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla, hvetja til aukinnar hreyfingar og fræða börn um ávinning reglulegrar hreyfingar.

Göngum í skólann er alþjóðlegt verkefni og Ísland tekur nú þátt í 18. skipti. Þeir sem að verkefninu standa hérlendis eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), mennta- og barnamálaráðuneytið, Embætti landlæknis, Ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli.

Eftir ávörp fulltrúa þeirra sem að verkefninu standa og skemmtilegrar stundar þar sem Húlladúllan, sirkulistakonan Unnur María Máney Bergsveinsdóttir, fór á kostum var haldið í stuttan, táknrænan göngutúr frá Brekkuskóla um nágrennið.

Með verkefninu er ætlunin að hvetja til heilbrigðs lífsstíls fyrir alla fjölskylduna, að því er segir í tilkynningu frá ÍSÍ, „en hreyfing vinnur m.a. gegn lífsstílstengdum sjúkdómum, stuðlar að streitulosun og betri sjálfsmynd. Einnig er markmiðið að auka færni barna til að ganga á öruggan hátt í skólann og kenna reglur um öryggi á göngu og á hjóli. Þar að auki er markmiðið að draga úr umferð við skóla og stuðla að betra og hreinna lofti ásamt öruggari og friðsælli götum og hverfi. Um leið er verið að stuðla að vitundarvakningu um ferðamáta og umhverfismál: Hversu „gönguvænt“ umhverfið er og hvar úrbóta er þörf.“

Verkefnið hófst í Bretlandi árið 2000 og hefur þátttaka farið stöðugt vaxandi. „Hér á landi fer skráning grunnskóla mjög vel af stað og auðvelt er fyrir skóla að bætast í hópinn. Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október og Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er 2. október. Vegna birtu og veðuraðstæðna fer Göngum í skólann verkefnið fram hér á Íslandi í septembermánuði og því lýkur á Alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 2. október.“

Vefsíða verkefnisins er www.gongumiskolann.is.