Fara í efni
Pílukast

Íþróttafélag fatlaðra á Akureyri stofnað 1974

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 57

Haldið var upp á 50 ára afmæli Íþróttafélagsins Akurs um síðustu helgi, eins og Akureyri.net sagði frá fyrr í dag. Félagið var stofnað 7. desember árið 1974 og hét fyrst Íþróttafélag fatlaðra (ÍFA). Stofnfundurinn fór fram á endurhæfingastöðunni Bjargi og á myndinni að ofan eru fjórir af fimm í fyrstu stjórn félagsins. Frá vinstri: Jakob Tryggvason varaformaður, Kristjana Einarsdóttir ritari, Stefán Árnason formaður, og Tryggvi Sveinbjörnsson meðstjórnandi. Gjaldkeri var Ásgeir Pétur Ásgeirsson.

Um miðjan níunda áratuginn fór iðkendum fækkandi hjá félaginu og þá kviknaði sú hugmynd að opna félagið öllum þ.e jafnt fötluðum iðkendum sem ófötluðum, að því er segir á nýrri heimasíðu - akursport.is. „Var þessi breyting samþykkt á aðalfundi félagsins árið 1987 og var þá nafni félagsins jafnframt breytt og heitir það síðan íþróttafélagið Akur.“

„Félagið var stofnað að frumkvæði Magnúsar Ólafssonar sjúkraþjálfara Sjálfsbjargar á Bjargi og Jakobs Tryggvasonar starfsmanns á Bjargi,“ segir á heimasíðu Akurs. Þeir fengu til liðs við sig Sigurð Magnússon framkvæmdastjóra ÍSÍ við stofnun félagsins og voru stofnfélagar 39.

Í tilefni tímamótanna er sjálfsagt að birta einnig myndirnar tvær hér að neðan, sem teknar voru á stofnfundi ÍFA eins og sú efsta. Myndirnar eru allar úr safni Akureyrarblaðsins Íslendingsins.

Stofnfundur Íþróttafélags fatlaðra á Akureyri – sem nú heitir Íþróttafélagið Akur – á endurhæfingastöðinni Bjargi, 7. desember 1974 Lengst til hægri er Sigurður Magnússon, framkvæmdastjóri Íþróttasambands Íslands, og við hlið hans Ísak Guðmann formaður Íþróttabandalags Akureyrar, ÍBA.

Stefán Árnason, fyrsti formaður Íþróttafélags fatlaðra á Akureyri, og Ísak Guðmann, formaður Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) á stofnfundinum.