Fara í efni
Pílukast

Gamla íþróttamyndin: Fimm mörk Halldórs

Myndir: Skapti Hallgrímsson

GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 51

Einn Akureyringur hefur afrekað það að skora fimm mörk í einum og sama leiknum í efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þórsarinn Halldór Ómar Áskelsson gerði fimm mörk í 6:1 sigri á FH í lokaumferð 1. deildar á Akureyrarvelli laugardaginn 14. september 1985, þá tvítugur að aldri.

KR-ingurinn Beno­ný Breki Andrés­son skoraði fimm sinnum í 7:0 sigri á HK í lokaumferð Bestu deildarinnar á dögunum og því er tilvalið að gamla íþróttamyndin þessa helgi sé af hinu magnaða afreki Halldórs fyrir 39 árum. Myndirnar eru raunar tvær því við hæfi er að birta bæði mynd af fimmta og síðasta marki Halldórs og fögnuði Þórsara.

  • Myndin að ofan: Halldór liggur á vellinum eftir að hann skoraði fimmta sinni, sjötta mark Þórs, á 86. mínútu. Glókollurinn næst honum er Siguróli Moli Kristjánsson, Árni Jakob Stefánsson er skælbrosandi fyrir miðri mynd og hægra megin, númer 18, er Sigurður Bjarnar Pálsson. FH-ingurinn er Dýri heitinn Guðmundsson.

  • Halldór skorar fimmta mark sitt gegn FH laugardaginn 14. september 1985. Kristján Kristjánsson sendi fyrir markið frá vinstri, Halldór skaut en Úlfar Daníelsson varði, boltinn hrökk aftur til Halldórs sem skoraði í annarri tilraun. Dýri Guðmundsson reynir að komast fyrir skotið, Magnús Pálsson er  fyrir miðri mynd og Viðar Halldórsson fjær. 

Halldór gaf tóninn strax á fyrstu mínútu leiksins. Hann „fékk knöttinn skammt utan vítateigs, fékk nógan tíma til að athafna sig og sendi síðan þrumfleyg með vinstra fæti efst í markhornið fjær. Stórglæsilegt mark. Eitt það glæsilegasta sem undirritaður hefur séð i sumar,“ sagði blaðamaður Morgunblaðsins sem fjallaði um leikinn – sá sem hér ýtir á lyklaborðið fyrir Akureyri.net.

Halldór gerði fyrsta markið eftir aðeins 47 sekúndur, það næsta á 16. mínútu og þriðja markið á 26. mín. Nói Björnsson kom Þór í 4:0 seint í fyrri hálfleik. Kristján Gíslason minnkaði muninn fyrir gestina snemma í seinni hálfleik, Halldór gerði fjórða mark sitt á 75. mín. og það fimmta á 86. mín. sem fyrr segir.

  • Halldór varð fjórði leikmaðurinn til að skora fimm mörk í leik í efstu deild síðan deildaskipting var tekin upp 1955. Gunnar Gunnarsson gerði fimm mörk fyrir Val gegn Íþróttabandalagi Akureyrar (ÍBA) 1957, KR-ingurinn Þórólfur Beck gerði fimm mörk 1961, einnig gegn ÍBA, en Teitur Þórðarson gerði enn betur – skoraði sex mörk þegar Akurnesingar unnu Breiðablik 10:1 árið 1973.
  • Þórsarar urðu í þriðja sæti deildarinnar þetta sumar. Valur varð meistari með 38 stig, ÍA fékk 36 og Þór 35. Fram varð í fjórða sæti með 34. Þrjú lið komust í Evrópukeppni; tvö efstu og Fram sem varð bikarmeistari. Skagamenn unnu Fram í lokaumferðinni í Reykjavík og skutust þar með upp í annað sætið.