Fara í efni
Ólafur Þór Ævarsson

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn 10. október 2023.

Þessi dagur er haldinn hátíðlegur ár hvert. Geðheilbrigðisstofnun WHO velur árlega þema sem vakin er sérstök athygli á og þykir skipta miklu máli.

Í ár er lögð áhersla á mikilvægi geðheilsu allra, hvort sem þeir búa í borg eða sveit og í hvaða landi sem er. Einnig að líta beri á góða geðheilsu og aðgang að geðheilbrigðsþjónustu, þegar hennar er þörf, sem sjálfsögð mannréttindi.

Víða erlendis, sérstaklega í fátækari löndum, er aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu allt of lélegt. Þó að við kvörtum oft undan biðlistum eða skorti á þjónustu hérlendis þá eigum við geðheilbrigðiskerfi sem er af svipuðum gæðum og veitir sambærilega þjónustu og gert er í þeim löndum sem við gjarnan miðum okkur við. Og stjórnvöld hafa markað skýra stefnu um geðheilbrigðismál og öll viljum við bæta þjónustuna enn frekar. Sá þáttur opinberrar geðheilbrigðisþjónustu sem er mun minni hér en t.d. á Norðurlöndunum er geðræn endurhæfing. Þess í stað hafa myndast grasrótarhópar þeirra sem átt hafa við veikindi að stríða og þessir hópar hafa unnið merkilegt frumkvöðlastarf í geðheilsueflingu, forvörnum og baráttu gegn fordómum. Þetta starf er unnið í samvinnu við fagfólk en er að mestu drifið áfram af áhuga og eldmóði sjálboðaliða. Nokkrir slíkir hópar hafa starfað lengi á höfðuborgarsvæðinu eftir eigin hugmyndafræði. Dæmi um slíkt frumkvöðlastarf er Hugarafl, Hlutverkasetur og klúbburinn Geysir. Geðræn endurhæfing og starfsendurhæfing í Janus endurhæfingu er sérhæfari meðferðarstaður. Allt þetta starf er unnið frá byrjun af eldhugum og frumkvöðlum og í nánu sambandi við þá sem átt hafa við geðræn veikindi að stríða og eru í eflingar- og endurhæfingarferlum hver á sínum forsendum. Fullyrða má að starf þessara ofuhuga hefur haft ómetanleg áhrif á geðheilsu Íslendinga og hefur bjargað mörgum mannslífum. Starfssemi þessarra hópa hefur verið í ágætri samvinnu við heilbrigðiskerfið og einnig félagsþjónustuna, ekki síst úti á landi.

Starf Grófarinnar – Geðræktar á Akureyri er dæmi um slíkt grasrótarstarf og er rekið af samnefndum frjálsum félagasamtökum. Tilgangur starfseminnar er að efla geðheilsu með geðrækt og draga úr fordómum gagnvart fólki með vanda af geðrænum toga. Það er langt frá því að vera sjálfsagt eða mögulegt að reka starfssemi af þessum toga á landsbyggðinni og afar mikilvægt að bæjaryfirvöld hlúi vel að slíku starfi. Hafa verður í huga að starfssemi af þessu tagi er ekki alltaf mjög áberandi og þar fara ekki sterkir þrýstihópar. Einnig verður að taka tilllit til þess að erfitt getur verið að sýna fjárhagslegan ábata af slíku starfi en erlendar rannsóknir benda til að af hverri krónu sem veitt er til slíkrar endruhæfingar skili sér sem átta krónur til baka til samfélagsins. Þeir sem þekkja náið starfssemi Grófarinnar hafa með eigin augum séð hinn mikla árangur sem næst í ánægjulegum bataferlum og með fjölmörgum kraftaverkum.

Starfsemi Grófarinnar er 10 ára í dag. Forvarna- og fræðslusjóðurinn ÞÚ GETUR! hefur í tilefni dagsins veitt Grófinni Geðrækt Hvatningaverðlaun ársins 2023 sem er styrkur að upphæð ein miljón krónur og er viðurkenning á mikilvægi þessarar starfsemi. Fjármagn sjóðsins kemur frá fyrirtækjum og einstaklingum og frá tónlistarfólki sem af rausn hefur gefið vinnu sína á styrktartónleikum í gegnum árin.

Í stjórn ÞÚ GETUR! eru Ólafur Þór Ævarsson, Pálmi Matthíasson og Sigurður Guðmundsson og við sem Norðanmenn höfum fylgst með mikilvægu starfi Grófarinnar úr fjarlægð og skiljum vel mikilvægi þessa starfs. Við vitum að fjárstyrkur af þessu tagi kemur að góðum notum en berum einnig þá von í brjósti að viðurkenning ÞÚ GETUR veki athygli á mikilvægu starfi Grófarinnar.

Til hamingju með daginn.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Skipulag heilbrigðisþjónustu

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
15. nóvember 2024 | kl. 09:30

Fjárveitingar í heilbrigðisþjónustu

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. nóvember 2024 | kl. 09:30

Stefnumörkun í heilbrigðisþjónustu

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 09:30

Ójöfnuður í geðheilbrigðisþjónustu

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
26. október 2024 | kl. 09:00

Geðheilsa á vinnustöðum

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2024 | kl. 10:00

Traust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00