Fara í efni
Ólafur Þór Ævarsson

ADHD

Fræðsla til forvarna - XVI

Sumir eru í persónugerð sinni ofurvirkir og utan við sig. Aðrir hafa tilhneigingu til að verða þannig undir miklu álagi. Og svo eru þeir sem hafa starfssemistruflun í heilanum sem veldur sjúklegri truflun á stýringu í heilanum sem gefur sjúkdómseinkennin athyglisbrest og ofvirkni.

Orsakir þessara sjúklegu breytinga eru ekki þekktar.

Starfssemistruflunin veður í samskiptum taugafruma í þeim hluta djúpheila sem stýrir einbeitingu. Þetta var áður talið meðfætt fyrirbæri sem aðallega kæmi fram hjá börnum en nú er til rannsókna hvort þetta geti að einhverju leiti verið áunnið líka og að heilinn breytist síðar á ævinni.

Mælingar á algengi (sem segir til um hve margir eru veikir á hverjum tíma og gefur upplýsingar um meðferðarþörf í samfélaginu) mælist mjög mismunandi eftir rannsóknum. Vandaðar nýgengisrannsóknir (nýgengi mælir hve mörg ný tilfelli eru að greinast og gefur upplýsingar um orsakir og hættu á að fá sjúkdóminn) eru ekki til. Til eru kenningar um áhættuþætti og kynjamun en lítið er um rannsóknir sem styðja kenningarnar. Tíðni virðist í vestrænum samfélögum fara hratt vaxandi en þetta er talið tengjast breyttum geðgreiningum, viðhorfum og samfélagsbreytingum fremur en auknu nýgengi.

Geðgreiningakerfin hafa á síðustu áratugum verið að útvíkka skilyrði þannig að fleiri greinast en áður og þetta á við um fleiri geðsjúkdóma og hefur verið gagnrýnt.

Engin blóðprufa, myndrannsókn eða sérhæfð greiningaraðferð er í boði.

Mikilvægt er að greina ADHD frá ýmsum öðrum sjúkdómum eða hegðunarmunstrum sem geta gefið lík einkenni. Þetta eru t.d. ýmsir sveiflusjúkdómar eins og geðhvörf, ákveðnar tegundir af kvíða og þunglyndi og sjúkdómar sem geta valdið vitrænni truflun. Algeng vandamál eins og álag og streita og samskiptavandamál geta líka gefið lík einkenni.

Áhættumat er alltaf gert í læknisfræði þegar verið er að meta kosti og galla þeirrar lyfjameðferðar sem fyrirhuguð er. En þetta er sérstaklega mikilvægt hér þar sem við vitum að við erum að útsetja fleiri en áður fyrir mögulegum aukaverkunum þar sem svo miklu fleiri eru viljugir til þess að nota lyfin. Einnig er oftast stefnt að löngum meðferðartíma, jafnvel ævilöngum. Sjaldgæf en hættuleg aukaverkun er geðrof en algengt er að fá aukinn kvíða og svefnröskun. Vitað er af neikvæðum örvandi áhrifum á hjarta og æðakerfi en langtímaáhrif lyfjanna eru ekki nægilega vel þekkt. Og svo er notkun örvandi lyfjanna umdeild ef fíkn er til staðar eða viðkvæmni fyrir eða erfðahætta á fíkn.

Fernt sem algengt er að misskilja:

  1. Að sálfræðileg greining sé nægileg til að hefja lyfjameðferð. Svo er ekki. Einkennamælingin sem fer fram í sálfræðilega matinu er mjög mikilvæg en að auki þarf að gera áhættumat og mismunagreiningu og mynda meðferðarsamband áður en lyfjameðferð hefst. Þetta er ferli sem tekur tíma og því er ekki hægt að búast við að læknirinn skrifi út lyfin eftir símtal eða eitt viðtal.
  2. Að allir sem finna fyrir einkennunum athyglisbrestur eða ofvirkni hafi sjúkdómsgreininguna ADHD. Svo er ekki. Stundum er um að kenna álagi, hvíldarleysi eða samskiptavandamálum.
  3. Að allir hafi gagn af örvandi lyfjum. Um það bil helmingur þeirra sem byrja á ADHD lyfjum hafa mikið gagn af þeim. Aðrir hafa lítið gagn af lyjameðferðinni og sumir fá bara mikil óþægindi. Þó örvandi lyfin séu mest þekkt (Concerta, Elvanse, Rítalín, Attentin), þá eru til sérhæfðari og ekki örvandi lyf (Atomoxetin eða Strattera) sem henta mörgum betur. Margir sem velja að fara í samtalsmeðferð (með eða án lyfja) ná miklum árangri.
  4. Í læknisfræðilegri nálgun stjórnar það ekki ákvarðanatöku að allir sem telji sig hafa gagn af meðferð eða telji sig hafa rétt á henni fái hana. Það sem ræður för er læknisfræðilegt mat á kostum og göllum meðferðarinnar út frá þeirri fræðilegu þekkingu sem til staðar er og verði gagnlegust og hættuminnst fyrir sjúklinginn.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Skipulag heilbrigðisþjónustu

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
15. nóvember 2024 | kl. 09:30

Fjárveitingar í heilbrigðisþjónustu

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. nóvember 2024 | kl. 09:30

Stefnumörkun í heilbrigðisþjónustu

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
13. nóvember 2024 | kl. 09:30

Ójöfnuður í geðheilbrigðisþjónustu

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
26. október 2024 | kl. 09:00

Geðheilsa á vinnustöðum

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
10. október 2024 | kl. 10:00

Traust

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
05. október 2024 | kl. 06:00