Minjasafnið hlaut safnaverðlaunin
Minjasafnið á Akureyri hlaut í dag Íslensku safnaverðlaunin 2022. Verðlaunin voru afhent í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík, á Alþjóðlega safnadeginum.
Í umsögn valnefndar segir meðal annars að safnið sé rótfast í eyfirsku samfélagi og hafi verið það frá stofnun árið 1962. „Starfsemi þess er fagleg og fjölþætt. Það hefur sinnt söfnun og varðveislu menningarminja af mikilli alúð, með áherslu á söfnun ljósmynda sem er öflug samfélagslegstenging og samofin öllu starfi safnsins, einkum á síðustu áratugum.“
Þar segir einnig: „Það er mat valnefndar að Minjasafnið á Akureyri haldi vel „lifandi“ tengslum milli svæðisbundins menningararfs og samtímans með vel skipulagðri starfsemi og hafi margsýnt hvers samfélagslega rekin minjasöfn eru megnug og mikilvæg þegar þau eru vel mönnuð og vel er haldið utan um þau. Áhersla á samfélagsleg gildi og samstarf við hina ýmsu ólíku hópa og aðila skipar Minjasafninu á Akureyri í hóp fremstu safna á Íslandi í dag.“
Íslensku safnaverðlaunin eru nú veitt í þrettánda sinn. Fimm söfn voru tilnefnd, auk Minjasafnsins á Akureyri voru það Byggðasafnið í Görðum, Gerðarsafn, Hönnunarsafn Íslands og Síldarminjasafn Íslands.