Fara í efni
Minjasafnið á Akureyri

Voga-Jón og dragkista hans í Nonnahúsi

Dragkistan, sveinsstykki Voga-Jónas, og teikning Arngríms málara af Jóni.

SÖFNIN OKKAR – 68

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Fyrsta íslenska sveinsstykkið í trésmíði

Í Nonnahúsi kennir ýmissa grasa. Auk sýningar um barnabókahöfundinn Nonna sem ólst upp í húsinu eru til sýnis ýmsir munir úr híbýlum fólks frá fyrri tíð. Einn þeirra er dragkista frá 1850 smíðuð af móðurbróður Nonna, Jóni Jónssyni frá Vogum í Mývatnssveit.

Jón Jónsson, Voga-Jón líkt og hann var kallaður, fæddist 8. september 1829 í Ytri-Neslöndum í Mývatnssveit. Voga-Jón lifði nokkuð óhefðbundnu lífi miðað við íslenska bændur á 19. öld og var á undan sinni samtíð með margt. Ungur að árum fékk hann óþrjótandi menntaþrá og mikla löngun til þess að komast út fyrir landsteinana. Árið 1847, þá 18 ára gamall hélt hann út til Kaupmannahafnar og hóf nám í trésmíði. Frítímann nýtti hann sér í lestur og komst þar í kynni við bækur á enskri tungu. Hreifst hann svo af tungumálinu að hann náði sér í kennslubækur í ensku og hóf þegar að læra ensku af sjálfum sér. Þá komst hann einnig að í sunnudagsskóla og lærði þar skrift, teikningu, bókhald, danska málfræði, réttritun og teikningu. Þetta dugði þó ekki Voga-Jóni, en hann hafði mikinn áhuga á að læra á fiðlu og fékk kennslu í fiðluleik á sunnudagskvöldum. Hann æfði sig á hverju kvöldi og lærði smá saman öll helstu lögin sem spiluð voru í Kaupmannahöfn í þá daga. Hann varð síðar brautryðjandi í fiðluleik á Norðurlandi.

Dragkistan – sveinsstykki Voga-Jóns í trésmíðanáminu í Kaupmannahöfn. Hún þykir einkar merkileg þar sem talið er að hún sé fyrsta íslenska sveinsstykkið í trésmíði.

 

Voga-Jón snéri aftur heim snemma árs 1851 og settist að á Vogum í Mývatnssveit. Bjó hann þar með eiginkonu og börnum næstu árin. Hann stundaði búskap og reyndi einnig fyrir sér í kál- og kartöflurækt en sinnti trésmíðinni minna. Þegar enskumælandi ferðamenn voru staddir í Mývatnssveit fóru þeir iðulega að Vogum þar sem ábúandinn gat spjallað við þá á þeirra móðurmáli, þó vissulega með sterkum hreim. Hann hóf einnig að rita sjálfsævisögu sína en ekki á íslensku heldur ensku, sem var algjört einsdæmi hér á landi.

Eftir mikil harðindaár á Íslandi stefndi Jón og fjölskylda að flytjast búferlum til Brasilíu. Seldu þau Voga og allar eignir sínar en skipsferð brást og varð ekkert úr ferðinni. Réðu þau sig þá í húsmennsku á Laxamýri en Jón lést ári síðar, þá einungis 36 ára gamall. Árið 1877 var sjálfsævisaga hans gefin út á prenti í breska tímaritinu Fraser's Magazine. Tveimur árum áður hafði ekkja Voga-Jóns, Guðrún Árnadóttir, gefið handritið Englendingum sem ætluðu sér að hitta hann en hún gat sjálf ekki lesið handritið. Árið 1968 þýddi Haraldur Hannesson sjálfsævisöguna á íslensku og tíu árum síðar ritaði Gylfi Gröndal ævisögu Voga-Jóns, Vonarland. Ævisaga Jóns frá Vogum.

Titilblað úr sjálfsævisögu Voga-Jóns sem birtist í Fraser's Magazine árið 1877. Myndin er tekin af Google Books.

Blýantsteikning af Voga-Jóni eftir Arngrím málara frá 1863. Myndin er ljósrit úr bók Kristjáns Eldjárns um Arngrím málara en teikningin sjálf er í eigu Þjóðminjasafns Íslands.

Sveinsstykki Voga-Jóns í trésmíðanáminu í Kaupmannahöfn var dragkista, en hún þykir einkar merkileg þar sem talið er að hún sé fyrsta íslenska sveinsstykkið í trésmíði. Sveinsstykki er gripur sem iðnnemi vinnur þegar hann tekur sveinspróf.

Árið 1997 fékk Björn R. Lárusson hússgagnasmiður mikinn áhuga á Voga-Jóni eftir að hafa lesið sér til um hann. Kistan var þá í eigu Jóns Frímanns Jónssonar í Bláhvammi í Reykjahverfi, en Voga-Jón var langafi hans. Þá var hún farin að láta nokkuð á sjá vegna rakaskemmda. Björn heimsótti Jón Frímann og vildu þeir báðir láta gera kistuna upp og leituðu því til Sverris Hermannssonar byggingarmeistara á Akureyri sem féllst á að taka verkefnið að sér. Kistan var heldur ver farin en leit út í fyrstu og urðu því viðgerðirnar töluverðar, alls 70 aðgerðarstaðir. En Sverrir var snillingur á þessu sviði og gerði hann kistuna upp með miklum sóma. Við viðgerðirnar notaði hann efni úr kirkjunni á Ytri-Bægisá frá 1890 og sömuleiðis nokkuð af efni frá Skipalóni frá 1824. Kistan er öll geirnegld og í henni eru 44 trénaglar. Síðla árs 1998 var kistan afhent Nonnahúsi til varðveislu og hefur verið þar síðan.