Fara í efni
Minjasafnið á Akureyri

Mikið um dýrðir við lýðveldisstofnun

SÖFNIN OKKAR – XXXI

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum, en frestast reyndar til föstudags að þessu sinni.

Næsta mánudag verða 80 ár síðan lýðveldið Ísland var formlega stofnað á Þingvöllum. Af því tilefni eru hér birtar nokkrar myndir frá Minjasafninu á Akureyri, teknar 17. júní árið 1944, og vitnað í Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason sagnfræðing.

Íslendingar gengu til lýðveldiskosninga í maí. „Á Akureyri fór kosningin fram í Samkomuhúsinu og stóð í fjóra daga en henni lauk ekki fyrr en klukkan tólf á miðnætti þriðjudaginn 23. maí,“ segir Jón í fimmta bindi Sögu Akureyrar.

„Þrátt fyrir að mikill metingur væri á milli kaupstaða og hreppa um bestu kosningaþáttttökuna voru Akureyringar seinir að taka við sér. Mikill erill var samt á skrifstofu kjörstjórnarinnar sem hafði komið sér fyrir á tveimur stöðum í bænum, hjá templurum í Skjaldborg og í herbergi númer 2 á Hótel Akureyri. Þangað var stöðugur straumur sjálfboðaliða og síminn þagnaði ekki, einkum þegar leið á kosningarnar en í herbergi númer 2 gátu menn pantað bíl til að keyra sig á kjörstað og þar höfðu menn greitt atkvæði utan kjörstaðar.“

 

Samstaða var mikil meðal landsmanna um stofnun lýðveldis og uppsögn sambandslagasamningsins; 97% kjósenda samþykktu sambandsslit við Danmörku og 95% samþykktu breytingar á stjórnarskránni í þjóðaratkvæðagreiðslunni í maí. Kjörsóknin var ríflega 98% sem er mesta kjörsókn í sögu Íslands.

Lýðveldið Ísland var stofnað á Lögbergi á Þingvöllum 17. júní 1944 og þar kusu alþingismenn fyrsta forseta Íslands, Svein Björnsson ríkisstjóra. 

Mannfjöldinn sem skundaði á Þingvöll var ekki heppinn með veður á þessum merku tímamótum í sögu lands og þjóðar. Á föstudagskvöld var komin „úrhellis útsunnanrigning“ eins og það var orðað í Morgunblaðinu og mikið rigndi á Þingvöllum 17. júní.

Annað var upp á teningnum á Akureyri, þar sem vitaskuld voru einnig hátíðahöld. „Sólin skein í heiði og léttur sunnan andvari gældi við kinnar. Þetta var blíðasti dagur ársins, laugardagur, og götur bæjarins gljáfægðar, garðar snyrtilegir og víða stirndi á nýmáluð hús,“ segir Jón Hjaltason í Sögu Akureyrar.

„Sannkölluð fánaborg blakti yfir bænum og skip skörtuðu öllum veifum sem til voru um borð. Loksins var komið að því að Íslendingar losnuðu að fullu og öllu við Dani.“

Jón heldur áfram:

„Upp úr níu tók fólk að streyma á Ráðhústorg. Tæpum klukkutíma síðar var mannmergðin orðin slík að ekki sást lengur í torgið. Þá hóf stjórnandi Lúðrasveitar Akureyrar og organisti Akureyrarkirkju, Jakob Tryggvason, upp tónsprotann og ættjarðarlög tóku að hljóma í miðbænum. Von bráðar breytti Jakob um takt og tónlistarmennirnir gengu af stað og blésu nú göngulög. Á eftir fylgdi gríðarlegur mannfjöldi. Skrúðgangan fór norður Brekkugötu, niður Gránufélagsgötu, suður Glerárgötu, upp Strandgötu og inn Hafnarstræti. Athugull blaðamaður, sem ekki treysti sér til að telja göngufólkið, mældi þess í stað mannhafið og notaði Hafnarstrætið sem mælistiku. Fólkið huldi götuna utan frá Ráðhústorgi og inn að bindindisheimilinu Skjaldborg, skrifaði hann, og fullyrti að aldrei fyrr hefði þvílíkt fjölmenni sést á götum bæjarins.“

Þarna vitnar Jón í Akureyrarblaðið Verkamanninn.

„Áfram þokaðist skrúðgangan inn endilangt Hafnarstrætið, upp Spítalaveg og niður Eyrarlandsveg að kirkjunni þar sem Friðrik J. Rafnar tók á móti göngufólkinu með skörulegri hátíðarpredikun. Sumir urðu þó að standa utan dyra. En veðrið var blítt og engum varð kalt.

Eftir hádegi var fögnuðinum haldið áfram. Fólk kom unnvörpum á Ráðhústorgið þar sem gjallarhorni, tengdu útvarpinu, hafði verið komið fyrir. Þannig heyrðu viðstaddir það sem fram fór á Þingvöllum þegar lýst var gildistöku lýðveldisstjórnarinnar og kjöri forseta lýðveldisins. Þessu var fagnað á Ráðhústorgi með húrrahrópum, síðan voru haldnar ræður, Lúðvrasveitin lék og karlakórar bæjarins, Geysir og Karlakór Akureyrar, sungu.“

Þessi skreyting var sett upp í stórverslun Kaupfélags Eyfirðinga við Hafnarstræti þann 17. júní 1944.

Settur lögreglustjóri á Akureyri skoraði á bæjarbúa að snyrta til við hús sín fyrir lýðveldisstofnunina eins og sjá má á þessari auglýsingu.

Dagskrá hátíðahaldanna á Akureyri 17. júní 1944.

KJÖRSEÐILL

Hér má sjá hvernig kjörseðillinn við þjóðaratkvæðagreiðsluna um sambandsslit við Danmörku og lýðveldisstjórnarskrána leit út „er kjósandinn hefir samþykkt hvorttveggja,“  eins og segir í auglýsingunni.