Fara í efni
Minjasafnið á Akureyri

Fegurðin felst í einfaldleikanum

Altaristaflan úr Glæsibæjarkirkju sem er í Davíðshúsi; gengt sófanum fyrir ofan stofuskáp skáldsins frá Fagraskógi er. Altaristöfluna gerði Hallgrímur Jónsson (1717-1785) frá Naustum.

SÖFNIN OKKAR – XX
Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Fegurðin felst í einfaldleikanum – altaristöflur feðganna af Naustum

Síðasta kvöldmáltíðin er algengt myndefni á altaristöflum. Í tveimur húsum Minjasafnsins á Akureyri er að finna slík verk sem eru eftir feðga sem eru höfundar margra listaverka sem prýða kirkjur.

Það er ekki algengt að altaristöflur skreyti venjulegar dagstofur. Davíðshús er kannski ekki venjulegt hús en gengt sófanum fyrir ofan stofuskáp skáldsins frá Fagraskógi er altaristafla úr Glæsibæjarkirkju sem er verk eftir Hallgrím Jónsson (1717-1785).

Altaristafla Jóns Hallgrímssonar í Minjasafnskirkjunni er svokölluð vængjatafla; hægt er að loka henni með tveimur vængjum. Hér er hún lokuð og á vængjunum er Móses með lögmálstöflurnar, til vinstri, og Aron með staf sinn og glóðaker.

Hallgrímur var fæddur á bænum Naustum á Akureyri. Hann var hagur smiður og þekktur fyrir einkar fagran útskurð. Raunar barst orðspor hans alla leið til konungs Danmerkur og Íslands sem árið 1784 veitti honum 30 ríkisdali í heiðursgjöf fyrir meistaralega trésmíði. Ekki amaleg listamannalaun. Hallgrímur gerði fjölmarga kistla, knippliskrín og minningartöflur svo nokkuð sé nefnt og á sínum efri árum málaði hann altaristöflur. Þá list nam Hallgrímur að öllum líkindum hjá syni sínum, Jóni.

Altaristaflan er sögð frá 1771 og er máluð á tré. Hún var mikið skemmd þegar Davíð Stefánsson eignaðist hana og fékk því Brynju Hlíðar, lyfjafræðing og listakonu til að gera við myndina. Altaristaflan í Davíðshúsi er afar einföld að gerð. Dr. Kristján Eldjárn sagði höfuðeinkenni á altaristöflum Hallgríms vera skort á „skólaþjálfun í teikningu og litameðferð, samfara barnslegri sköpunargleði og einlægri litanautn. Þessi listaverk Hallgríms eru unnin af einskærri hjartans lyst og það er þeirra styrkur.“

Opin altaristafla Jóns Hallgrímssonar í Minjasafnskirkjunni. Aðalmyndefnið, kvöldmáltíðin, er í öllum aðalatriðum eins á öllum myndum Jóns. 

Jón Hallgrímsson (1741-1808) var einnig fæddur að Naustum. Hann var þekktur kirkjulistamaður og málari. Jón fór til Kaupmannahafnar og lærði málaralist 1760-1762. Eftir að hann kom aftur til Íslands var honum falið að skreyta hina nýju Hóladómkirkju að innan. Þær skreytingar eru að hluta til sýnilegar í dag.

Tíu altaristöflur eftir Jón hafa varðveist en þær eru málaðar á árunum 1765-1806. Líkt og faðir hans var list hans ekki bundin við málverkið. Fagrir predikunarstólar eftir Jón eru varðveittir á Þjóðminjasafninu og er að finna í kirkjum t.d. í Lögmannshlíðarkirkju.

Yngst verka Jóns er altaristaflan í Minjasafnskirkjunni, sem áður stóð á Svalbarði á Svalbarðsströnd. Altaristaflan var gerð fyrir forvera hennar sem var torfkirkja en fylgdi kirkjunni yfir fjörðinn í Minjasafnsgarðinn.

Verkið er svokölluð vængjatafla, þ.e. henni er hægt að loka með tveimur vængjum. Á vængjunum má sjá t.v. Móse með lögmálstöflurnar en t.h. Aron með staf sinn og glóðaker.

Aðalmyndefnið, kvöldmáltíðin, er í öllum aðalatriðum eins á öllum myndum Jóns. Eitt megin einkennið eru tveir menn sem eru yst til vinstri málaðir eins og tvíburar. Að sama skapi er Júdas auðþekkjanlegur og hlutverk hans undirstrikað á áhugaverðan hátt eins og sjá má.

Stuðst var við:

Mynd á þili. Íslenskir myndlistarmenn á 16., 17. og 18. öld eftir Þóru Kristjánsdóttur.Kirkjur Íslands bindi 10, Minjasafnskirkjan eftir Harald Þór Egilsson.

Þessi mynd af Kristi á krossinum er að öllum líkindum einnig eftir Hallgrím Jónsson. Myndin er í Davíðshúsi.