Fara í efni
Minjasafnið á Akureyri

50 ár frá vígslu – myndir af kirkju á ferðalagi!

Myndir úr safni Minjasafnsins á Akureyri

Það er ekki oft sem kirkjur skipta um sókn. Hvað þá að þær taki sér far á vörubílspalli. Þannig hófst ferðalag kirkjunnar á Svalbarði yfir fjörðinn 26. og 28. október árið 1970.

„Kirkjan hafði þjónað hlutverki sínu vel frá 1846 og er höfundi sínum, Þorsteini Daníelssyni frá Skipalóni, til sóma. Byggingin er gott dæmi um einfaldar og látlausar íslenskar timburkirkjur frá miðri 19. öld,“ segir Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri.

En allt hefur sinn tíma. Árið 1957 voru ekki lengur not fyrir þessa litlu kirkju á Svalbarði og ný steinkirkja tók við hlutverki hennar. Gamla kirkjan gerðist nokkuð hrörleg meðan hún beið þess sem verða vildi. Hennar biðu þó ekki sömu örlög og fyrstu kirkju Akureyringa sem lauk hlutverki sínu 1940 en var rifin þremur árum síðar. Næstum þrír áratugir liðu áður en saga kirkjunnar og safnsins hinu megin við fjörðinn ófust saman.

Árið 1965 fékk stjórn Minjasafnsins á Akureyri heimild til að veita gömlu kirkjunni á Svalbarði viðtöku til að flytja hana á lóð safnsins. Kirkjan var flutt á vagni til Akureyrar haustið 1970. Hún beið af sér óveður á pallinum en var svo flutt yfir fjörðinn þar sem henni var komið fyrir á nýjum grunni í garði Minjasafnsins á Akureyri þar sem Akureyrarkirkja stóð áður. Þórður Friðbjarnarson, safnstjóri, hafði veg og vanda að verkinu og viðgerðunum sem þurfti að ráðast í. Kirkjan var svo vígð á ný 10. desember 1972 og hefur síðan gegnt sínu tvíþætta hlutverki sem safnhús og guðshús og heitir nú Minjasafnskirkjan.

Við vígsluna var sungið ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk

Vígsluljóð

Þú gamla, lága guðshús
sem gestum opnar dyr,
Enn leið í djúpri lotning
Er lögð til þín sem fyr.
Vor önn er yndisvana,
vor auður gerviblóm,
því heimur, gullli glæstur,
án guðs er fánýtt hjóm.

Fyrr gestur göngumóður
við grátur þínar kraup.
Margt tár í þögn og þjáning
á þessar fjalir draup.
Hér æskan ljúf í auðmýkt
sín örlög guði fól.
Hér skyggðu þyngstu skuggar.
Hér skein og björtust sól.

Þú varst hin milda móðir.
Þín miskunn allra beið.
Þú veittir hjálp og hugdirfð
að halda fram á leið.
Það ljós, er lýðum barstu,
um langa vegu sást.
- Þú enn ert vonum viti.
Þín vegsögn engum brást.

Og kæra, aldna kirkja,
í kyrrþey beiðstu þess
að yngjast, endurvígjast,
og öðlast fyrri sess.
Enn bljúg, í hljóði beðin,
er bæn í fangi þér.
- Hið gamla, lága guðshús
vor griðarstaður er.