Fara í efni
Menntamál

Skora á ráðherra að hætta við sameiningu

Menntaskólinn á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kennarafélag Menntaskólans á Akureyri lýsir yfir eindreginni andstöðu við áform ráðherra um að sameina framhaldsskólana í bænum, Menntaskólann og Verkmenntaskólann, og skorar á hann að falla frá áformunum. Þetta kemur fram í ályktun sem félagið sendi frá sér í dag.

Ályktun kennarafélags Menntaskólans á Akureyri er svohljóðandi:

Kennarafélag Menntaskólans á Akureyri lýsir yfir eindreginni andstöðu við áform mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, um sameiningu framhaldsskólanna á Akureyri, Menntaskólans og Verkmenntaskólans.

Skýrsla stýrihóps mennta- og barnamálaráðuneytis var unnin án aðkomu almenns starfsfólks og nemenda skólanna sem um ræðir, þrátt fyrir fögur fyrirheit um samráð og samvinnu. Fjölmargar þversagnir og rangfærslur eru í skýrslunni. Hún leiðir í ljós undirliggjandi ástæðu þessara sameiningaráforma, sem er niðurskurður. Meðal þess sem slíkar aðgerðir byggja á er fækkun sálfræðinga, námsráðgjafa og kennara. Fækkun starfsfólks og stækkun nemendahópa samrýmist engan veginn áformum um aukinn stuðning við nemendur í sameinuðum skóla.

MA og VMA eru framúrskarandi skólar, hvor með sína sérstöðu, sögu og menningu. Þeir hafa sett svip sinn á nærsamfélagið um langa tíð og hafa þrifist vel hvor í nábýli við annan undanfarin 40 ár. Skólarnir hafa átt í farsælu samstarfi og vilji er hjá kennarafélagi MA að efla það enn frekar.

Niðurskurðurinn í framhaldsskólakerfinu er nú þegar of mikill. Stutt er síðan þriggja ára stúdentspróf var tekið upp með tilheyrandi sparnaði og auknu álagi á nemendur. Kennarafélag Menntaskólans á Akureyri skorar á ráðherra að falla frá áformum um sameiningu.

Akureyri, 8. september 2023