Fara í efni
Menntamál

Skólameistari MA leggst alfarið gegn vinnu um samstarf

Karl Frímannsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, leggst alfarið gegn því að hefja nokkra vinnu um aukið samstarf framhaldsskólanna tveggja á Akureyri, MA og VMA, eftir að í ljós kom að markmiðið sé að spara og hagræða. Hann hefur upplýst Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, um þá afstöðu sína. Þetta kemur fram í bréfi sem Karl sendi öllu starfsfólki MA í dag.

Karl kveðst frá upphafi ítrekað hafa talað gegn því að farið verði í þessa vinnu ef markmiðið væri að spara og skera niður „svo ekki sé talað um að flytja fjármagnið sem hugsanlega sparast inn í ráðuneytið aftur.“

Hann skrifar: „Eins og staðan er núna, þegar ráðherra á undanförnum dögum ítrekar í fjölmiðlum að markmið með vinnunni sé að spara og hagræða, sé ég mér ekki fært sem skólameistari MA að halda málinu áfram og leggst alfarið gegn því að hefja nokkra vinnu um aukið samstarf á þessum forsendum.“

Karl segir: „Í stöðuskýrslu stýrihóps ráðherra voru sett fram fjárhagsleg rök fyrir sameiningu skólanna sem standast enga skoðun og lagði ég til að umræddur kafli yrði felldur burt. Við því var ekki orðið. Um ofangreinda afstöðu mína vitna minnisblað mitt til ráðuneytisins, skrifleg tilkynning til samstarfsfólks sem og opinber greinarskrif og málflutningur í ferlinu undanfarið.“

Bréf Karls Frímannssonar til starfsmanna MA er svohljóðandi:

„Ágæta samstarfsfólk.

Þegar ráðherra mennta- og barnamála hafði í upphafi þessa árs frumkvæði að og lagði til að kannað yrði hvort hægt væri að auka samstarf MA og VMA í þeim tilgangi að efla menntun og bæta skólastarf lýsti ég mig sem skólameistari MA reiðubúinn til að taka þátt í slíkri vinnu. Það var mat beggja skólameistara að skynsamlegt væri að kanna málið til hlítar í ljósi þeirrar stöðu sem skólarnir eru í og fá úr því skorið hvort aukið samstarf gæti gert þá burðugri til að takast á við óhjákvæmilegar og krefjandi áskoranir í umhverfi þeirra.

Frá upphafi þessa máls hef ég ítrekað talað gegn því að farið verði í þessa vinnu ef markmiðið er að spara og skera niður svo ekki sé talað um að flytja fjármagnið sem hugsanlega sparast inn í ráðuneytið aftur. Í stöðuskýrslu stýrihóps ráðherra voru sett fram fjárhagsleg rök fyrir sameiningu skólanna sem standast enga skoðun og lagði ég til að umræddur kafli yrði felldur burt. Við því var ekki orðið. Um ofangreinda afstöðu mína vitna minnisblað mitt til ráðuneytisins, skrifleg tilkynning til samstarfsfólks sem og opinber greinarskrif og málflutningur í ferlinu undanfarið.

Eins og staðan er núna, þegar ráðherra á undanförnum dögum ítrekar í fjölmiðlum að markmið með vinnunni sé að spara og hagræða, sé ég mér ekki fært sem skólameistari MA að halda málinu áfram og leggst alfarið gegn því að hefja nokkra vinnu um aukið samstarf á þessum forsendum. Hef ég upplýst ráðherra um afstöðu mína.

Sem einlægur talsmaður vandaðrar menntunar hefur það veist mér erfitt að sjá málið þróast á þann veg sem raun ber vitni. Ég ítreka við ykkur að innan MA starfar öflugur og framsækinn hópur sem hefur alla burði til að vinna að farsælum breytingum í þágu nemenda og skólans alls.“