Fara í efni
Menntamál

Íslandsbikarinn er kominn aftur heim!

Björn Jakobsson, til vinstri, og Andri Mikaelsson tóku á móti Íslandsbikarnum í kvöld og skauta hér glaðbeittir að samherjum sínum með gripinn. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyringar eru Íslandsmeistarar í íshokkí karla á ný eftir tveggja ára hlé. „Bikarinn er kominn heim!“ sögðu fleiri en einn og fleiri en tveir í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld eftir glæsilegan sigur SA Víkinga á liði Skautafélags Reykjavíkur, 6:1. Akureyringar unnu þar með einvígið 3:0 og SA er Íslandsmeistari í 24. skipti í karlaflokki.

Skautafélag Reykjavíkur er Íslandsmeistari tveggja síðustu ára og það er ljóst snemma leiks í kvöld að „Strákarnir okkar“ í SA Víkingum ætluðu sér að hampa bikarnum á ný, hvað sem það kostaði.

Akureyringar voru í vænlegri stöðu, höfðu unnið tvo fyrstu leiki úrslitaeinvígisins, og þótt gestirnir næðu forystu í kvöld breytti það engu. SA jafnaði þremur mínútum síðar og hafði síðan yfirburði það sem eftir lifði leiks. Frammistaða liðsins var frábær í kvöld.

  • SA - SR 6:1 (1:1, 3:0, 2:0)

  • 0-1 - Lukas Dinga (09:32). Stoðsendingar: Eduard Kascak og Níels Hafsteinsson
  • 1-1 - Unnar Hafberg Rúnarsson (12:40). Stoðsending: Hafþór Sigrúnarson
    ---
  • 2-1 - Unnar Hafberg Rúnarsson (22:50). Stoðsending: Ormur Jónsson.
  • 3-1 - Uni Blöndal (34:48). Stoðsending: Unnar Hafberg Rúnarsson.
  • 4-1 - Jóhann Leifsson (37:44). Án stoðsendingar
    - - -
  • 5-1 - Ólafur Björgvinsson (41:29). Án stoðsendingar.
  • 6-1 - Andri Mikaelsson (50:26). Án stoðsendingar.

Unnar Rúnarsson (28) jafnar 1:1 fljótlega eftir að Reykvíkingar brutu ísinn; Unnar þrumaði pekkinum upp í þaknetið af stuttu færi. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Unnar, fyrir miðju, fagnar ásamt félögum sínum eftir að hann jafnaði 1:1. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Mikill fögnuður Akureyringa braust eðlilega út um leið og leiknum lauk. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Björn Jakobsson og Andri Mikaelsson með Íslandsbikarinn. Mynd: Rakel Hinriksdóttir


Íslandsmeistarar Skautafélags Akureyrar eftir glæsilegan sigur á Skautafélagi Reykjavíkur í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Meira á morgun

Leik dagsins var streymt á YouTube-rás Íshokkísambands Íslands og má horfa á hann í spilaranum hér að neðan. Smellið á myndina.