Fara í efni
Menntamál

Gæta þarf gamalla hefða en ganga samt nýjar slóðir

Karl Frímannsson, nýskipaður skólameistari Menntaskólans á Akureyri, við smíðar í gær heima í garði þeirra Bryndísar Þórhallsdóttur.

„Mér líst vel á að veita Menntaskólanum á Akureyri forstöðu með því góða fólki sem þar er. Skólastarfið stendur fyrir allt það besta sem bóknámsskólar þurfa að hafa og verðugt verkefni að viðhalda því ásamt því að þróa starfshætti í takti við örar breytingar í samfélaginu,“ segir Karl Frímannsson, nýráðinn skólameistari MA í samtali við Akureyri.net.

Karl, sem verið hefur sviðsstjóri fræðslu- og lýðheilsusviðs Akureyrarbæjar undanfarin fjögur og hálft ár, tekur við starfi skólameistara 1. ágúst. Áður var hann meðal annars sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar og skólastjóri Hrafnagilsskóla í 13 ár. Þá starfaði hann í mennta- og menningarmálaráðuneytinu um skeið, bæði sem verkefnastjóri og aðstoðarmaður ráðherra.

Brenn fyrir velferð og framfarir

„Þegar starfið var auglýst kviknaði áhugi á að sækjast eftir því sérstaklega vegna þess að ég brenn fyrir velferð og framfarir nemenda á hvaða skólastigi sem er en þó sérstaklega barna. Í starfi skólameistara verð ég mun nær nemendum í daglegu starfi en í núverandi starfi sem sviðsstjóri hjá Akureyrarbæ og hef tök á að vinna náið með kennurum sem eru mikilvægasta starfsstétt samfélagsins,“ segir Karl. „Í MA er mjög öflugur hópur sem hefur sýnt í verki að hann gerir allt sem mögulegt er til að nemendur nái tilætluðum árangri á grunni stefnu og gilda skólans. Þetta er eftirsóknarvert starfsumhverfi fyrir stjórnanda. Sjálfur gekk ég í MA í tvo og hálfan vetur og kynntist skólalífinu þá þótt ég hafi þá fallið á brott úr námi. Bóknámsáhugi minn kom ekki fyrr en síðar þegar ég hóf háskólanám.“

Með nýju fólki þarf ekki endilega að fylgja stefnubreyting, segir Karl Frímannsson, „en áherslubreytingar verða óhjákvæmilega í byrjun eingöngu vegna þess að ný sjónarhorn bregða nýrri birtu á starfshætti.“

Hann nefnir í þessu sambandi vísu sem Úlfur Ragnarsson læknir skrifaði aftan á málverk sem Karl keypti af honum fyrir um 30 árum. „Hún á vel við á þessum krossgötum,“ segir Karl.

Þannig er vandanum varið,
ég vek á því athygli bróðir.
Að gæta þarf gamalla hefða
en ganga samt nýjar slóðir.

MA er eftirsóknarverður

„Það sem ég heyri og sé af skólastarfi í MA þá er einmitt verið að gæta hefðanna um leið og nýjar slóðir eru gengnar. Það gerir MA eftirsóknarverðan. Ég á alveg eftir að sjá gögn um skólastarfið en af fundargerðum gæðaráðs skólans að dæma þá er verið að vinna ötullega að skólaþróun nemendum til hagsbóta,“ segir hinn nýi skólameistari. „Eitt af stóru verkefnunum er að fá nægjanlega margar umsóknir frá nemendum í 1. bekk en eftir styttingu náms til stúdentsprófs liggur fyrir að námsálag hefur aukist frá því sem var og hefur í einhverjum tilvikum komið niður á þátttöku nemenda í félagsstarfi. Innan skólans hefur verið unnið að því að jafna námsálag og haga kennslu og námsmati með þeim hætti að nemendum verði gert hægar um vik að ná árangri og taka framförum,“ segir Karl Frímannsson.

Frétt Akureyri.net í gær: Karl Frímannsson skólameistari MA